Ástandið gæti boðað nýja tíma fyrir netvangsstörf á Norðurlöndum

03.06.20 | Fréttir
cykelbud hämtar mat på McDonalds
Photographer
Stina Stjernkvist/TT/Scanpix
Hefst vinnudagurinn þinn þegar síminn pípir og einhver vill fá heimsenda pizzu? Eða láta bera píanó upp í íbúðina sína? Þá ert þú einn hinna fáu Norðurlandabúa sem vinna fyrir sér innan þess sem nefnt hefur verið netvangshagkerfi og byggir á lausaráðningum gegnum smáforrit. Rannsakendur á sviði vinnumála telja þó að heimsfaraldurinn og vaxandi atvinnuleysi geti leitt til þess að fleiri leiti í slíka vinnu.

Þegar faraldurinn braust út urðu götur norrænna stórborga mannlausar – að frátöldum hjólasendlum með stóra, einangraða bakpoka sem báru heimsendan mat til fólks. Á bakpokunum stóð Foodora, Wolt eða Uber Eats, en það eru nöfn netvangsfyrirtækja sem sérhæfa sig í að heimsenda mat.

Á næstu tveimur mánuðum, meðan matsölustaðir voru lokaðir og fólk hélt sig heima við, óx þessum fyrirtækjum fiskur um hrygg og brátt auglýstu þau eftir fleira starfsfólki. Um leið fór fram æ líflegri umræða um öryggi matarsendlanna og möguleika þeirra á bótum ef þeir veiktust.

Síkvikur eða áhættusamur geiri?

Netvangshagkerfinu er stundum lýst sem nýskapandi og síkvikum þjónustugeira sem geti boðið nýjar tekjulindir og möguleika til frumkvöðlastarfsemi og sveigjanlegrar vinnu.

Nýskapandi og sveigjanleg störf af þessu tagi eiga þó líka sínar skuggahliðar.

„Faraldurinn hefur leitt í ljós áhættu og óöryggi sem felst í netvangsstörfum. Oft er litið á fólkið sem sinnir þessum störfum sem sjálfstætt starfandi. Það þýðir að það hefur ekki sömu réttindi og fastráðið launafólk hvað varðar veikindaleyfi, atvinnuleysisbætur og gott starfsumhverfi,“ segir Sigurd Oppegaard, sem hefur rannsakað vinnumál hjá norsku rannsóknarstofnuninni FAFO og er nú á doktorsstyrk í félagsfræði við háskólann í Ósló.

Ný skýrsla um netvangsstörf á Norðurlöndum

Oppegaard birti nýverið, ásamt hópi norrænna rannsakenda, skýrslu um netvangsstörf innan norrænna líkana sem ber titilinn:

Skýrslan fjallar um þróun netvangsstarfa á Norðurlöndum undanfarinn áratug og þær áskoranir sem þau hafa í för með sér fyrir norræna vinnumarkaðslíkanið og almannatryggingakerfin.

Meðan höfundarnir lögðu lokahönd á skýrsluna fylgdust þeir spenntir með alþjóðlegri umræðu um réttindi fólks í netvangsstörfum við þær aðstæður sem heimsfaraldurinn hefur skapað.

Starfsfólk í viðkvæmri stöðu

Rætt hefur verið um smitvarnir fyrir Uber-bílstjóra, ræstingafólk og matarsendla, en einnig um efnahagslegt öryggi menntafólks sem fæst við ritstörf og þýðingar í lausamennsku og sem skyndilega var minni eftirspurn eftir, en sem átti oft ekki rétt á atvinnuleysisbótum.  

Þeir netvangar þar sem verkkaupar og verktakar geta samið um veitta þjónustu ná til ýmissa starfsgreina þar sem mismikillar menntunar og sérhæfingar er krafist.  

Efnahagskreppan varð hvatinn

Fyrstu netvangarnir urðu til í kjölfar hinnar alþjóðlegu efnahagskreppu 2007–2008. Þrátt fyrir að netvangar á borð við Uber, Hilfr og Foodora hafi nú verið til staðar í rúman áratug eru þeir enn jaðarfyrirbæri á Norðurlöndum.

Um leið og netvangshagkerfinu vex fiskur um hrygg um allan heim reikna rannsakendurnir með því að á bilinu 0,3–2,5 prósent vinnufærra borgara á Norðurlöndum hafi starfað innan slíks hagkerfis á undanförnu ári.  

Netvangsstörfum kann að fjölga aftur

„Hátt atvinnustig og vel skipulagður vinnumarkaður hefur hamlað vexti netvangshagkerfisins. Langflestum þykir föst vinna innan hefðbundinnar atvinnugreinar meira aðlaðandi en að reyna fyrir sér á netvöngunum. Langvarandi efnahagskreppa með miklu atvinnuleysi gæti þó boðað nýja tíma fyrir netvangsstörfin,“ segir Sigurd Oppegaard.

Þótt ekki sé vitað fyrir víst hvað framtíðin ber í skauti sér telja rannsakendurnir mikilvægt að norrænu löndin setji reglur um netvangsstörf svo þau leiði ekki til félagslegs undirboðs, óöryggis í ráðningum og skattaundanskota.

Starfsmenn eða sjálfstætt starfandi?

Enn hafa engin dómsmál verið rekin á Norðurlöndum sem varpað gætu ljósi á það hvort fólk í netvangsstörfum skuli teljast starfsmenn eða sjálfstætt starfandi, og hver kjör þeirra eigi að vera.

Netvangsfyrirtæki ganga oft út frá því að fólk sem tekur að sér verkefni á þeirra vegum sé sjálfstætt starfandi og beri sjálft ábyrgð á orlofsgreiðslum sínum, veikindadögum og lífeyrisgreiðslum. Þannig eiga verktakarnir á hættu að standa uppi með minni réttindi en fastráðið starfsfólk.

Netvangsfyrirtækin líta ekki á sig sem atvinnurekendur sem semja megi við um kaup og kjör. Þess í stað ákvarðast kaup og kjör verktakanna af lógaritmum hins stafræna netvangs.

Sterkar tilhneigingar kristallast í jaðarfyrirbæri

„Norræn stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið þann pól í hæðina að bíða og sjá til. En þótt netvangsstörf séu enn sem komið er jaðarfyrirbæri á Norðurlöndum, þá koma saman og kristallast í þeim margar hinna sterku tilheiginga sem við sjáum á vinnumarkaðnum í dag, svo sem stafræn væðing og nýstárleg ráðningarform. Því er brýnt að stjórnvöld og stéttarfélög svari kallinu og krefjist góðra starfsskilyrða. Kannski mun ástandið vegna kórónuveirunnar og hugsanlegur vöxtur netvangshagkerfisins knýja fram slík svör,“ segir Sigurd Oppegaard.

Enn meira óöryggi

Fram að þessu virðist netvangshagkerfið ekki hafa ógnað norræna líkaninu svo um muni, þótt rannsakendurnir telji það hafa skapað enn meira óöryggi innan ýmissa geira sem þegar einkenndust af lágum launum, lakari starfsskilyrðum, hærra hlutfalli sjálfstætt starfandi fólks og minni samtakamætti en í öðrum geirum – svo sem meðal leigu- og flutningabílstjóra og ræstingafólks.

Þvert á móti virðist norræna líkanið hafa aftrað því að netvangsfyrirtæki næðu fótfestu og einnig komið böndum á þau að einhverju leyti. Þótt reynst hafi afar vandasamt að fella netvangsfyrirtækin að norræna vinnumarkaðslíkaninu, sem byggir á þríhliða samráði milli ríkis og aðila vinnumarkaðarins, hefur norska fyrirtækið Foodora nú gert kjarasamning við matsendla sína og hið danska Hilfr sömuleiðis við ræstingafólk sitt. Rannsakendurnir sjá merki um að netvangarnir skapi þrýsting á norræna líkanið, en einnig um það að norræna líkanið komi böndum á netvangana.

Hafa Norðurlönd komið böndum á netvangshagkerfið?

Samkvæmt kjarasamningi Hilfr getur ræstingafólk í lausamennsku orðið starfsfólk fyrirtækisins eftir 100 stunda vinnu gegnum netvanginn og öðlast þá rétt til veikindaleyfa, orlofslauna og lífeyrisbóta.

Samningur hins norska Foodora kveður á um launahækkanir og endurgreiðslur vegna kaupa á vinnufötum og búnaði.

„Þessir samningar sýna að sum netvangsfyrirtæki reyna að laga sig að hinu norræna líkani. Svo þarf að koma í ljós hvort um er að ræða kænskubrögð til að auka trúverðugleika þessara netvanga og vörumerkja þeirra í augum neytenda og stjórnmálafólks. Sömuleiðis hvort þessar aðgerðir hafa raunverulega komið böndum á netvangana,“ segja rannsakendurnir.  

Fróðleikur:

  • Nánari upplýsingar um skýrsluna eru í tímaritinu „Arbetsliv i Norden“: Så gick det när Uber mötte Norden
  • Skýrslan verður kynnt í Ósló þann 23. júní á málþinginu „Plattformarbeid i de nordiske modellene - før og etter korona“ („Netvangsstörf innan norrænu líkananna – fyrir og eftir kórónuveiruna“). Hægt verður að fylgjast með málþinginu í beinu streymi. Tengill á streymið verður birtur þegar nær dregur. 
  • „Platform work in the Nordic models: Issues, cases and responses“ er áfangaskýrsla í umfangsmiklu rannsóknarverkefni sem norrænu vinnumálaráðherrarnir ýttu úr vör árið 2017.
  • Rannsóknarverkefnið ber heitið „Future of Work: Opportunities and Challenges for the Nordic Models“.  
  • 25 rannsakendur frá sjö norrænum háskólum koma að verkefninu sem stýrt er af FAFO í Noregi.
  • Lokaskýrslu um verkefnið er að vænta á haustdögum 2020.