Norðurlönd læri af mistökum á tímum heimsfaraldursins

13.04.21 | Fréttir
Nordiska flaggor
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Norrænt samstarf hefur verið undir miklu álagi vegna kórónuveirunnar undanfarið ár. Þetta er álit forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem fundaði þann 13. apríl. Nú býðst þó gott tækifæri til að læra af áskorunum heimsfaraldursins og efla samstarfið til að auka öryggi og dagleg lífsgæði Norðurlandabúa.

 Listinn yfir áskoranir sem samstarfið hefur staðið frammi fyrir undanfarið ár vegna COVID-19 er langur, og inniheldur ekki síst erfiðleika sem komið hafa upp vegna landamæralokana á Norðurlöndum. Einkum á landamærasvæðum hafa margir Norðurlandabúar orðið fyrir neikvæðum áhrifum.

„Til að byggja upp traustið til samstarfsins að nýju þarf skýr skilaboð frá norrænu löndunum,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Bertel Haarder. „Á undanförnu ári höfum við séð að þegar hættuástand ríkir leggja ríkisstjórnir norrænu landanna áherslu á landsbundnar lausnir og gleyma hinu norræna sjónarhorni. Þetta hefur gerst þrátt fyrir þá staðreynd að COVID-19 virðir engin landamæri, ekki frekar en netógnir eða loftslagsvá,“ segir Bertel Haarder.

Norrænt samstarfsnet um viðbúnað

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs leggur til að stofnað verði til norræns samstarfsnets um viðbúnað. Samnorræn áhersla á viðbúnað myndi stuðla að því að fyrirbyggja hættuástand í framtíðinni og auðvelda samfellda upplýsingamiðlun milli landanna, sem hefur að sumu leyti verið ábótavant á þessu fyrsta ári heimsfaraldursins. 
Bertel Haarder bendir á að Norðurlönd hafi góða möguleika á að verða leiðandi á heimsvísu hvað varðar rannsóknir, þróun og framleiðslu á bóluefni, lyfjum og prófunarbúnaði.
„En það útheimtir samstarf,“ segir forsetinn með áherslu. Jafnframt undirstrikar hann að Norðurlandaráð virði að sjálfsögðu rétt landanna til að sýna röggsemi og velja ólíkar lausnir í hættuástandi.

Til að byggja upp traustið til samstarfsins að nýju þarf skýr skilaboð frá norrænu löndunum

Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað einnig að fara að tillögu flokkahóps hægrimanna og biðja Norrænu ráðherranefndina að láta gera sameiginlega norræna samantekt á viðbrögðum við kórónukreppunni frá norrænum sjónarhóli.

Forsætisnefndin hefur þegar ákveðið að reynsla norrænu landanna af því að takast á við kórónufaraldurinn, og sá lærdómur sem draga megi af þeirri reynslu, verði þema á fundi Norðurlandaráðs með forsætisráðherrunum í tengslum við þing ráðsins í Kaupmannahöfn, fyrstu vikuna í nóvember.