Norrænt samstarf hjálpar konum af erlendum uppruna að fóta sig á vinnumarkaði

22.05.19 | Fréttir
Kvinde på cykel
Photographer
Yadid Levi
Nú hafa sveitarfélög og stjórnir fyrirtækja fengið nýjan leiðarvísi sem mun stuðla að bættri aðlögun kvenna af erlendum uppruna og fá fleiri úr þeirra hópi út á vinnumarkað. Hér er til mikils að vinna fyrir konurnar, börn þeirra og samfélagið allt.

„Norrænu löndin eru svipuð hvert öðru. Þess vegna er skynsamlegt að miðla reynslu á milli landanna. Það verður hægt með hjálp leiðarvísisins, sem veitir innsýn í árangursrík úrræði til að stuðla að aðlögun kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði,“ segir Catrine Bangum, aðalráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni. Aðdragandi leiðarvísisins, sem ber heitið „Veje til beskæftigelse for flygtninge- og indvandrerkvinder“, er að í norrænu löndunum er atvinnuþátttaka kvenna af erlendum uppruna lítil en eftirspurn eftir vinnuafli mikil. Þar að auki sýnir reynsla frá löndunum að árangursrík aðlögun kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði hefur einnig góð áhrif á aðlögun barna þeirra. Þessi jákvæðu áhrif á leiðarvísirinn að efla og styðja við.

Árangursríkir bestu starfshættir

Á undanförnum árum hefur fjölda verkefna verið ýtt úr vör til að fjölga konum af erlendum uppruna á vinnumarkaði. Þó hefur skort yfirsýn og þekkingu á þeim aðgerðum og verkefnum sem reynst hefur hentugt að leggja til grundvallar á sviðinu. Leiðarvísinum er ætlað að veita slíka yfirsýn. Leiðarvísirinn er aðgengilegur öllum en markhópurinn er sérfræðingar og millistjórnendur hjá sveitarfélögum og ríki sem vinna að skipulagningu staðbundinna og landsbundinna verkefna í tengslum við aðlögun að vinnumarkaði.

Norrænu löndin eru svipuð hvert öðru. Þess vegna er skynsamlegt að miðla reynslu á milli landanna. Það verður hægt með hjálp leiðarvísisins, sem veitir innsýn í árangursrík úrræði til að stuðla að aðlögun kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði.

Catrine Bangum, aðalráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni

Kortlagning byggð á tengslanetum

Leiðarvísirinn er unninn með hliðsjón af kortlagningu, byggðri á tengslanetum, yfir rannsóknir og greiningar sem unnar hafa verið í norrænu löndunum, auk hugmynda fagfólks í löndunum. Kortlagningin bendir til þess að augljós ávinningur verði af því að fjárfesta í aukinni atvinnuþátttöku kvenna af erlendum uppruna. Rambølls Management Consulting samdi leiðarvísinn í samstarfi við Rambølls konsulenter í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.