Skammlisti fyrir næsta norræna menningarviðburð

23.01.19 | Fréttir
Shortlist Nordic Cultural Initiatives abroad
Photographer
Shutterstock
Búenos Aíres, Tókýó og Róm eru á meðal átta borga er koma til greina sem vettvangur næsta umfangsmikla norræna menningarviðburðar sem fram fer utan Norðurlandanna. Norræna ráðherranefndin um menningarmál kynnti skammlistann þann 23. janúar.

Ráðherrarnir óskuðu eftir tillögum að staðarvali frá norrænum sendiráðum erlendis í nóvember 2018 og hafa viðbrögðin verið vonum framar, sem ber vitni hinum miklu sóknarfærum sem nú eru í alþjóðlegu samstarfi á sviði norrænnar menningar og lista. Næsti menningarviðburður mun fylgja í fótspor vel heppnaðra viðburða á borð við Nordic Cool í Washingtonborg árið 2013 og Nordic Matters í Lundúnum 2017.

23 tillögur úr öllum heimshornum

Viðbrögð sendiráða við ákalli ráðherranna hafa verið vonum framar, en alls bárust 23 tillögur að nýjum hugmyndum, mótsstöðum og gestgjafaborgum úr öllum heimshornum*. Norræna embættismannanefndin um menningarmál hefur nú valið þessar átta spennandi hugmyndir á skammlista fyrir hönd ráðherranna:

  • Addis Ababa, Eþíópíu
  • Brussel, Belgíu
  • Búenos Aíres, Argentínu
  • París, Frakklandi
  • Róm, Ítalíu
  • São Paulo, Brasilíu
  • Tókýó, Japan
  • Torontó, Halifax, Vancouver og Iqaluit, Kanada

Litið var til eftirfarandi þátta þegar valið var úr umsóknum: samspils norrænnar menningar við staðinn, norræns inntaks og boðskaps, svæðisbundins stuðnings við verkefnið, alþjóðlegs viðhorfs og mögulegs áhuga frá aðilum í norræna lista- og menningargeiranum.

Lokaákvörðun verður tekin vorið 2019.

Höfundum tillaganna átta gefst nú færi á að skerpa enn frekar á hugmyndum sínum og betrumbæta tillögurnar áður en þær verða metnar af fulltrúum lista- og menningargreina. Því næst munu menningarmálaráðherrarnir kynna vettvang næsta umfangsmikla norræna menningarviðburðar.

Ráðherrarnir reikna með því að kynna einn eða fleiri vinningshafa á fundi sínum á Íslandi í maí 2019. Viðburðurinn verður haldinn eigi síður en árið 2021 og Norræna ráðherranefndin hefur eyrnamerkt 5 milljónir danskra króna verkefninu.

 

*Svona dreifðust tillögurnar eftir heimsálfum: 3 frá Afríku, 3 frá Asíu, 11 frá Evrópu, 3 frá rómönsku Ameríku og 3 frá Norður-Ameríku.