Þvert á Norðurlönd

På tværs af Norden - Antologi 2
Ljósmyndari
Kathrina Skraðsá

„På tværs af Norden“ („Þvert á Norðurlönd“) er röð þriggja safnrita sem gefin eru út undir merkjum LØFTET, átaksverkefni norrænu menningarmálaráðherranna um barna- og unglingabókmenntir. Verkefnið felst einkum í því að efna árlega til þverfaglegs málþings um nýja strauma í barna- og unglingabókmenntum. Í kjölfar hvers málþings er svo gefið út safnrit þar sem þema málþingsins og tengdum málefnum eru gerð skil. Njótið vel!

„På tværs af Norden: Økokritiske strømninger i nordisk børne- og ungdomslitteratur“ („Þvert á Norðurlönd: Vistfræðilegir straumar í norrænum barna- og unglingabókmenntum“)

Nýja safnritið veitir innsýn í vistfræðilega strauma í nýlegum norrænum barna- og unglingabókmenntum gegnum rannsóknir, upplýsingamiðlun, myndskreytingar og skapandi skrif. Safnritið inniheldur meðal annars ritgerðir um þær áskoranir sem fylgja svonefndri mannöld, um rannsóknir á tengslum náttúru, menningar og úrgangs og um aðgerðasinna í norrænum barna- og unglingabókmenntum. Að auki eru í bókinni sjö sterkar sögur um vistfræðitengd viðfangsefni, sem eru afurð samstarfs milli norrænna myndskreyta og rithöfunda. Textarnir í safnritinu eru á dönsku, norsku og sænsku. Safnritið er annað í röð þriggja og kom út 2021.

„På tværs af Norden: Nye tendenser i børne- og ungdomslitteratur med nedslag i forskning og formidling“ („Þvert á Norðurlönd: Nýir straumar í barna- og unglingabókmenntum með hliðsjón af rannsóknum og upplýsingamiðlun“)

Þetta safnrit veitir innsýn í nýja strauma í barna- og unglingabókmenntum með hliðsjón af norrænum rannsóknum og upplýsingamiðlun. Einnig inniheldur það fróðleik um hvernig rannsókna- og miðlunarstarf á sviði norrænna barna- og unglingabókmennta hefur verið fest í sessi og hvernig því er viðhaldið þvert á Norðurlönd. Í ritgerðunum er meðal annars fjallað um hringrás barnabókmennta á Norðurlöndum, því er velt upp hvort norræna myndabókin eldist, norrænar rapsódíur óma með frjálsri aðferð og hugtakið „gæði“ er sett undir smásjá. Textarnir í safnritinu eru á dönsku, norsku og sænsku. Safnritið er það fyrsta í röð þriggja og kom út 2019.

Um verkefnið LØFTET

Þegar Norræna ráðherranefndin stofnaði til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2013 var verkefninu LØFTET komið á fót samhliða. Um er að ræða átaksverkefni um norrænar barna- og unglingabókmenntir sem til stendur að þróa áfram á tímabilinu 2019–2021 undir umsjón skrifstofu bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Verkefnið felst einkum í því að efna árlega til þverfaglegs málþings um nýja strauma í barna- og unglingabókmenntum. 

Slíkt málþing verður haldið hvert sumar á þessu þriggja ára tímabili, 2019–2021. Í kjölfar hvers og eins af þessum þremur málþingum kemur út safnrit þar sem þema málþingsins og tengdum málefnum eru gerð skil. Safnritin koma út að vetri til, bæði á rafrænu og prentuðu formi. 

Málþingið eflir og tengir saman ýmsa aðila og iðkendur á sviði norrænna barna- og unglingabókmennta, þar sem fagfólk úr ýmsum áttum – fræðimenn, rithöfundar, myndskreytar, miðlarar og útgefendur sem tengjast norræna bókmenntaheiminum – tekur þátt og skapar tenglanet og samlegðaráhrif, einnig um önnur mál auk málþingsins og safnritsins.