Norrænar velferðarlausnir

Upplýsingar
Norðurlönd eru oft brautryðjendur þegar kemur að því að sníða heilsugæslu að kröfum framtíðarinnar. Háþróað og vel skipulagt heilbrigðis- og velferðarkerfi gerir löndunum kleift að bjóða upp á sérsniðnar og nýstárlegar velferðarlausnir, ekki eingöngu á sviðum heilbrigðis- og velferðarmála heldur einnig byggingarlistar, (þjónustu)hönnunar og stafrænna lausna, svo eitthvað sé nefnt. Margar lausnanna fela í sér vistfræðilega, efnahagslega og félagslega sjálfbærni. Við teljum að norrænar velferðarlausnir geti gert þjóðum heimsins kleift að framfylgja ýmsum markmiðum áætlunar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030: Þriðja heimsmarkmiðinu um að stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar, níunda markmiðinu um að byggja upp viðnámsþolna innviði fyrir alla, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun og tólfta markmiðinu um að tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur.
Verkefnið um norrænar velferðarlausnir mun standa að kynningu norrænna lausna á erlendri grundu og jafnframt:
- stuðla að framfylgni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun;
- örva útflutning á norrænum vörum og lausnum;
- efla samstarfsnet norrænna útflutningsaðila (verðmætakeðjur);
- skapa öflugt vörumerki og frásögn um norrænar velferðarlausnir;
- auka þekkingu á nýstárlegum norrænum heilbrigðis- og velferðarlausnum.
Norrænar velferðarlausnir eru liður í verkefni forsætisráðherranna undir yfirskriftinni Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum. Verkefninu var ýtt úr vör í september 2016 og byggir það á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Starfstímabilið er 2017–2019.
Nánari upplýsingar:
Hafið samband við:
Mona Truelsen verkefnisstjóra, [m.truelsen@nordicinnovation.org]