Tungumálasáttmálinn

13.05.19 | Samningar
Samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um rétt norrænna ríkisborgara til að nota eigin tungu í öðru norrænu landi.

Upplýsingar

Signing of agreement
17.06.1981
Effective date for the agreement
01.03.1987
Signing countries
Danmörk
Finnland
Ísland
Noregur
Svíþjóð

Fyrirvari

Athugaðu að þessi texti er ekki opinber útgáfa. Ekki ber að nota textann í lagalegum tilgangi. Norræna ráðherranefndin tekur ekki ábyrgð á villum sem kunna að koma fyrir í textanum.

___________________

 

Ríkisstjórnir Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar,

 

sem telja mjög mikilvægt fyrir norræna samkennd og nánara samneyti norrænna þjóða að tungumálum Norðurlanda sé í auknum mæli gert jafn hátt undir höfði,

 

sem telja mikilvægt að norrænir ríkisborgarar geti í svo ríkum mæli sem kostur er notað eigin tungu við yfirvöld og aðrar opinberar stofnanir í öðru norrænu landi,

 

sem gera sér ljóst að góð málaþjónusta fyrir norræna innflytjendur hafi verulega þýðingu til að auðvelda aðlögun og tryggja þeim félagslegt öryggi og jafnrétti í samfélaginu, hafa í samræmi við þá hugsun sem býr að baki ályktun Norðurlandaráðs nr. 29/1966,

 

orðið ásáttar um eftirfarandi:

1. gr.

Þær tungur, sem samningur þessi tekur til eru íslenska, danska, finnska, norska og sænska.

 

Samningurinn gildir bæði um munnleg og skrifleg samskipti við yfirvöld og aðrar opinberar stofnanir, þó ekki samskipti símleiðis.

2. gr.

Samningsríkin skuldbinda sig til að stuðla að því að ríkisborgari samningsríkis geti eftir þörfum notað eigin tungu í samskiptum við yfirvöld og aðrar opinberar stofnanir í öðru samningsríki. Auk samskipta við dómstóla á þetta sérstaklega við um samskipti við opinbera aðila, svo sem heilbrigðis-, félagsmála- og barnaverndaryfirvöld svo og vinnumarkaðs-, skatta-, lögreglu- og skólayfirvöld.

 

Í málum sem eru til meðferðar hjá dómstólum eða öðrum opinberum stofnunum skulu þessar stofnanir, eftir því sem frekast er kostur, hlutast til um að útvega ríkisborgara samningsríkis nægilega þjónustu túlks eða þýðanda. Í sakamálum skulu ríkisborgarar ávallt fá nauðsynlega aðstoð túlks.

3. gr.

Kostnaður við túlkun eða þýðingu í málum, sem greind eru í 2. gr., greiðist af hinu opinbera. Þóknun til túlks vegna máls sem sætir opinberri ákæru skal ávallt greiðast af hinu opinbera.

 

Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að samningsríki geti krafist greiðslu að nokkru eða öllu leyti fyrir þýðingu á skjali frá þeim sem lagði skjalið fram ef það inniheldur óþarfar málalengingar eða er þýðingarlítið eða ef sérstakar ástæður eru að öðru leyti fyrir hendi. Þetta kemur heldur ekki í veg fyrir að samningsríki setji reglur um rétt hins opinbera til að endurkrefja kostnað við túlkun eða þýðingu frá þeim sem verður að standa straum af málskostnaði vegna þess að hann tapar máli eða af öðrum ástæðum.

4. gr.

Þeim sem dvelur á hæli eða stofnun skal, eftir því sem aðstæður leyfa, gefinn kostur á því að umgangast aðra sem hafa vald á sömu tungu.

5. gr.

Samningsríkin skulu leitast við að koma upp opinberri málaþjónustu eða annars konar túlkunar- eða þýðingaraðstoð á stöðum þar sem nokkur hópur ríkisborgara annars samningsríkis dvelur en skilur ekki tungu dvalarlandsins. Þegar fjöldi slíkra ríkisborgara í dvalarlandinu eða á tilteknu svæði þar gefur tilefni til skal það ríki annast þýðingu og dreifingu leiðbeininga, bæklinga, eyðublaða, o.þ.h. sem auðveldað geta samskipti einstaklingsins og hins opinbera.

6. gr.

Samningsríkin skuldbinda sig til að leitast við að gera átak varðandi málaþjónustu þegar aðstæður gefa tilefni til og að efla milliliðalausa samvinnu yfirvalda samningsríkjanna með það í huga að markmið samningsins komist til framkvæmda.

7. gr.

Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að tvö eða fleiri samningsríki geri með sér sérstakt samkomulag þegar ástæða þykir til um frekari skyldur en hér er samið um.

8. gr.

Sérhvert samningsríki skal tilgreina þann aðila sem hafi það hlutverk að fylgjast með framkvæmd samnings þessa í ríkinu og að efla samvinnu ríkjanna um þau atriði sem samningurinn nær yfir.

 

Þá skal norræna ráðherranefndin einnig fylgjast með framkvæmd þessa samnings.

9. gr.

Samningsríkin geta gerst aðilar að þessum samningi með því að

a. undirrita hann án fyrirvara um fullgildingu eða

b. undirrita hann með fyrirvara um fullgildingu ásamt síðari fullgildingu.

 

Fullgildingarskjöl skal afhenda til vörslu í finnska utanríkisráðuneytinu.

 

Samningurinn öðlast gildi fyrsta dags þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru tveir mánuðir frá því að fjögur samningsríki hafa gerst aðilar að samningnum. Gagnvart samningsríki sem síðar gerist aðili að samningnum öðlast hann gildi tveimur mánuðum eftir að það hefur gerst aðili að honum.

 

Sérhvert samningsríki getur sagt samningnum upp gagnvart sérhverju öðru samningsríki með sex mánaða fyrirvara.

 

Þessu til staðfestu hafa fulltrúar með umboði undirritað þennan samning.

 

Gjört í Svaneke á Borgundarhólmi 17. júní 1981 í einu eintaki á íslensku, dönsku, finnsku, norsku og sænsku.