Formennskuáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2021

Saman erum við sterkari og búum að meiri visku en hvert í sínu lagi. Þetta er eitt af grundvallaratriðum formennskuáætlunar Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2021.

Í formennskuáætlun Finnlands er áhersla lögð á framtíðarsýn norræns samstarfs, sem er að Norðurlöndin verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims. Í áætlun ársins 2021 eru settar fram leiðbeiningar um virkt samstarf til þess að skapa grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbærari Norðurlönd.

Árið 2021 mun einkennast af Covid-19, rétt eins og síðastliðið ár, og faraldurinn skapar nýjar áskoranir fyrir samstarfið. Finnland mun leggja áherslu á að leysa þessar áskoranir á árinu.

„Faraldurinn sýnir að við getum ekki leyst hnattræna erfiðleika ein okkar liðs. Það er skynsamlegt að leita sameiginlegra leiða til að búa okkur undir erfiðleika í framtíðinni. Því vilja Finnar efla samstarfið á sviði afhendingaröryggis og viðbúnaðarmála,“ segir Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands.

Á árinu gefast einnig tilefni til að fagna. Norræna ráðherranefndin verður 50 ára og sjálfstjórn Álandseyja heldur upp á 100 ára afmæli sitt 2021-2022.