Fyrst fékk jörðin hita – svo þú

Mand med maske
Photographer
Pille Riis Priske/ Unsplash.com
Við höfum kannski aldrei fundið betur fyrir því en nú í kórónuveirufaraldrinum að við á Norðurlöndum erum á sama báti og heimsbyggðin öll. Ekki liðu margar vikur frá því að veiran var greind í Wuhan þangað til börum var lokað í Kaupmannahöfn og Reykjavík.

Kórónuveiran á uppruna í náttúrunni að mati vísindamanna. Þegar villtum dýrum er þröngvað út úr náttúrulegu umhverfi sínu - til dæmis með skógarhöggi, vegna loftslagsbreytinga eða þegar verslað er með þau á dýramörkuðum - koma þau nær mannfólki og geta dreift smiti sem áður var óþekkt. 

Einnig er hætta á smiti til mannfólks þegar villt dýr eru veidd vegna kjöts eða skinna. 

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNEP, telur að aldrei hafi jafnmargar smitleiðir frá dýrum til manna verið fyrir hendi.

Það skiptir sköpum fyrir villt dýr og plöntur, fyrir mannfólkið og loftslagið að varðveita náttúruna og endurheimta það sem hefur verið eyðilagt. Við vitum að margbreytileg náttúra skiptir mótstöðuafl vistkerfanna máli.

Staðreyndir:

  • Samkvæmt rannsóknarnefnd SÞ um líffræðilega fjölbreytni hafa 290 milljónir hektara af frumskógi verið höggnir síðan 1990. 
  • Hálfa milljón tegunda sem lifa á landi skortir nægilega stór búsvæði til þess að lifa af til lengri tíma.  

Þetta getur þú gert:

  • Ekki kaupa vörur sem búnar eru til úr afurðum villtra dýra eða plantna í útrýmingarhættu - hvorki hér heima né í öðrum löndum.
  • Láttu þig varða um náttúruna, líffræðilega fjölbreytni og loftslagið með því að taka þátt í lýðræðislegum umræðum, ungmennahreyfingum og umhverfishreyfingum.
  • Stuðlaðu að því að ný hnattræn markmið fyrir líffræðilega fjölbreytni leiði til raunverulegra breytinga. 

Þú getur byrjað á því að safna saman vinum þínum, lesa og móta skoðanir í verkfærakassa þekkingar og breytinga. Boðskapurinn verður sendur áfram til samningaviðræðnanna um ný hnattræn markmið vegna líffræðilegrar fjölbreytni sem nú standa yfir.

Eða taktu þátt í umræðum í Facebook-hópnum Nordic Youth Biodiversity Network með öðru ungu fólki sem hefur áhuga á umhverfismálum.