397. Kolbeinn Óttarsson Proppé (Indlæg)

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið þá er ég frá Íslandi og við Íslendingar höfum alltaf staðið með frændum okkar Færeyingum. Það er ekki síst af því að frændur okkar Færeyingar hafa alltaf staðið með okkur. Jenis av Rana talaði hér um að það væri í anda Norðurlanda að rétta minnihlutahópum hjálparhönd og ég er alveg sammála því. Færeyingar hafa hins vegar sýnt það í veki að þeir rétta líka meirihlutahópum hjálparhönd, en þeir hafa stutt Ísland á erfiðum stundum þegar áföll hafa dunið yfir. Fyrir það verð ég ævarandi þakklátur.

En við erum hér á Norðurlandaþingi. Traust er ein af yfirskriftum þessa þings, gullið á Norðurlöndum. Við hlustuðum í morgun á Martti Ahtisaari tala um sáttamiðlun sem felst í því að hlusta á sjónarmið beggja. Ég treysti engum betur en Færeyingum sjálfum til að taka ákvörðun um þessi mál. Þannig vil ég horfa til traustsins sem er gullið á Norðurlöndum, að okkar eigin sögn.

Færeyingum finnst að ekki hafa verið nóg hlustað á þeirra sjónarmið. Mér finnst það ekki í anda Norðurlandaráðs, í anda orða um sáttamiðlun sem við fögnuðum hér öll í morgun, að verða þá ekki einfaldlega við því að hlusta betur á þau sjónarmið.

Ég stend hér sem þingmaður Íslands og ég mun styðja tillögu Færeyinga í þessu. Ég bið hv. þingmenn um að hafa það í huga, þegar þeir greiða atkvæði, hver ein af yfirskriftum þessa þings er; það er traust. Hverjum treystum við til að taka ákvörðun um málefni Færeyinga? Ég treysti Færeyingum best til þess.