20 stjórnsýsluhindranir í forgang

04.04.17 | Fréttir
Gränshinderrådet arbejder
Réttur til samgönguþjónustu gildir ekki alls staðar á Norðurlöndum og hamlar það frjálsri för fólks með fötlun. Í löndunum gilda ólíkar reglur um innflutning leiðsöguhunda. Þetta eru tvær af tuttugu hindrunum sem Stjórnsýsluhindranaráðið vill að stjórnvöld afnemi sem fyrst.

Norrænir borgarar sem eiga rétt á samgönguþjónustu í heimalandi sínu, öðlast ekki sjálfkrafa rétt á sams konar þjónustu annars staðar á Norðurlöndum. Fólki með fötlun reynist því erfiðara en ella að nýta sér frjálsa för milli landa.

Norræna stjórnsýsluhindranaráðið starfar í umboði stjórnvalda að því að stemma stigu við hindrunum sem bitna á atvinnu og hagvexti á Norðurlöndum.

Ráðið fundaði í Kaupmannahöfn 31. mars s.l. og valdi þá stjórnsýsluhindranir frá öllum löndunum, samtals tuttugu hindranir, sem settar skyldu í forgang. Nú er hafist handa við að leita til viðkomandi ráðuneyta og ráðherra og beita sér fyrir afnámi hindrananna.

Greitt fyrir hreindýrabúskap

Svein Ludvigsen er fulltrúi Noregs í ráðinu og jafnframt formaður þess. Þau Eva Tarselius Hallgren frá Svíþjóð leggja áherslu á tvær stjórnsýsluhindranir sem snerta hreindýrabúskap á landamærasvæðum Noregs og Svíþjóðar.

Í fyrra átti Stjórnsýsluhindranaráðið þátt í því að sænsk ökuskírteini á snjósleða öðlust gildi einnig í Noregi.

„Stjórnsýsluhindranaráðið er augljóslega vettvangur sem beitir sér fyrir skjótri lausn mála,“ segir Eva Tarselius Hallgren.

Verkmenntun ungs fólks

Auk þess sem áhersla er lögð á tuttugu stjórnsýsluhindranir verða samráðsfundir haldnir í löndunum með aðilum vinnumarkaðarins.

„Þar verður fjallað sérstaklega um hindranir sem tengjast verkmenntun ungs fólks. Forsætisráðherrarnir skrifa í starfsumboði okkar að við eigum að auðvelda ungu fólki að fóta sig á vinnumarkaði,“ segir Svein Ludvigsen.

 

Hér á eftir eru taldar upp hindranirnar tuttugu sem Stjórnsýsluhindranaráðið leggur áherslu á:

Noregur:

  • samgönguþjónusta fatlaðra;
  • leiðsöguhundar á ferðalögum;
  • persónulegur aðstoðarmaður við búferlaflutninga;
  • flutningar á farartækjum fyrir hreyfihamlaða;
  • umsókn um skattakort í Noregi;
  • norskar reglur um þyrluumferð sem torvelda viðhald á hreindýragirðingum í Noregi;
  • norskar tollareglur sem torvelda viðhald á hreindýragirðingum í Noregi;
  • réttur á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í Svíþjóð eftir endurhæfingarlífeyri í Noregi.

Svíþjóð:

  • norskar reglur um þyrluumferð sem torvelda viðhald á hreindýragirðingum í Noregi;
  • norskar tollareglur sem torvelda viðhald á hreindýragirðingum í Noregi;
  • aldursmörk fyrir skráningu í sænskan atvinnuleysistryggingasjóð.

Finnland:

  • verðmætaflutningar yfir landamæri; 
  • réttur á atvinnuleysisbótum eftir launalaust leyfi og uppsögn úr starfi í Noregi/Finnlandi;
  • virðisaukaskattur við innflutning á verkfærum iðnaðarmanna.

Ísland:

  • viðurkenning á fæðingarorlofi samkynhneigðra foreldra.

Grænland:

  • erlend vinnuverndarmenntun er ekki viðurkennd á Grænlandi;
  • ESB-reglur koma í veg fyrir útflutning frá Grænlandi um Danmörku.

Álandseyjar

  • takmarkaðir möguleikar sænskra lækna á að fara í starfsnám á Álandseyjum.

Danmörk

  • viðurkenning starfsréttinda;
  • reglur um byggingarstaðla.