„Það gengur alltof hægt“

24.09.15 | Fréttir
Doktor med medicin
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Norðurlandaráð efndi á dögunum til málþings í sænska þinginu með yfirskriftinni „Hvernig stendur baráttan gegn auknu sýklalyfjaónæmi og hvað er til ráða?“. Þar kom saman fjöldi sérfræðinga sem allir voru á einu máli um nauðsyn þess að grípa til aðgerða í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi, og það fyrr en seinna. „Pólitískur vilji er fyrir hendi, en það gengur alltof hægt,“ sagði Annicka Engblom, formaður borgara- og neytendanefndar Norðurlandaráðs.

„Nauðsynlegt er að rjúfa tengsl rannsóknastarfs og söluhagnaðar í þróun nýrra sýklalyfja gegn ónæmum bakteríum,“ sagði Otto Cars, prófessor í smitsjúkdómum við háskólann í Uppsölum, á málþinginu í Stokkhólmi á miðvikudaginn.

Otto Cars er þekktur fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn sýklalyfjaónæmi. Hann galt varhug við stöðunni í dag, en ónæmum bakteríum fjölgar stöðugt.

„Það þarf að leggja aukna áherslu á rannsóknir, og fyrirkomulag þeirra má ekki grundvallast á hagnaði. Nauðsynlegt er að rjúfa tengsl rannsóknastarfs og söluhagnaðar.“

Ný sýklalyf með nýjum verkunarhætti komu síðast fram á sjónarsviðið árið 1987. Otto Cars lagði m.a. til að hið opinbera fjárfesti í rannsóknum til að tryggja að rannsóknastarfið stjórnaðist ekki af sjónarmiðum hagnaðar. Hann lagði áherslu á að aukinnar alþjóðlegrar samhæfingar væri þörf í yfirstandandi aðgerðum gegn sýklalyfjaónæmi. Auk þess væri þörf á alþjóðlega bindandi samningum.

Óþreyja í Norðurlandaráði

Annicka Engblom (M), formaður borgara- og neytendanefndar Norðurlandaráðs, sagði að ástandið væri kvíðvænlegt og krefðist aðgerða þvert á pólitískar línur og vísindagreinar:

Pólitískur vilji er fyrir hendi, en það gengur alltof hægt. Við á Norðurlöndum stöndum okkur vel, en þegar horft er til annarra svæða í heiminum er ástandið verra í mismiklum mæli.

Otto Cars lagði ríka áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og fjallaði m.a. um aðgerðaáætlun sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gaf út fyrr á þessu ári. Að sögn Cars markar áætlunin tímamót, m.a. vegna þess hve markviss hún er og vegna þeirrar kröfu að öll lönd hafi samið sér aðgerðaáætlun að tveimur árum liðnum.

Norðurlandaráð leggur nú aukinn kraft í baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi. Fyrr í september urðu Norðurlöndin ásátt um að skipa stefnumótunarhóp til að auka gagnkvæma miðlun góðra starfsvenja og tryggja skilvirka nýtingu úrræða sem löndin búa yfir á þessu sviði.

Sjá nánar hér:

Markmiðið að notkun sýklalyfja verði minni á Norðurlöndum en annars staðar í Evrópu

Bo Könberg tók einnig til máls á málþinginu, en á síðasta ári vann hann skýrslu á sviði heilbrigðismála fyrir Norrænu ráðherranefndina sem vakið hefur mikla athygli. Í skýrslunni setur hann fram margar tillögur, m.a. um leiðir til að berjast gegn sýklalyfjaónæmi. Meðal markmiða er að að fimm árum liðnum verði notkun sýklalyfja orðin minni á Norðurlöndum en alls staðar annars staðar í Evrópu.

Í umræðunum var einnig vakið máls á einföldu úrræði sem allir geta tileinkað sér í baráttunni gegn ónæmum bakteríum: að þvo sér oftar um hendurnar. Það var Penilla Gunther (KD), formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs, sem lagði áherslu á þetta í lokaorðum sínum.

 „Stundum gefast einfaldar lausnir best. Hreinar hendur bjarga mannslífum.“