Aukið norrænt notagildi af endurbættu samstarfi

14.09.18 | Fréttir
6 på gaden - Dagfinn Høybråten
Photographer
Ane Cecilie Blichfeldt
Norrænt samstarf er enn þýðingarmeira en áður. Stofnunin virkar betur, viðbragðstími er skemmri og samstarfsverkefnin eru nátengdari pólítískum viðfangsefnum á svæðinu en áður. Þetta er niðurstaðan úr mati sem gert hefur verið á því umbótaferli sem starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar fór í gegnum. Niðurstöðurnar voru kynntar þann 20. júní.

Segja má að þetta mat sé viðbót við og staðfesting á fyrri matsniðurstöðum, en í fyrra matinu lögðu íbúar um öll Norðurlöndin mat sitt á samstarfið. Nýja matið byggir á viðtölum við stjórnmálafólk, embættisfólk og aðra hagsmunaaðila – það er að segja fólk sem starfar náið með Norrænu ráðherranefndinni eða innan hennar. Í þetta sinn voru skoðaðar þær umbætur sem gerðar hafa verið á starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á síðustu fjórum árum.

Í stuttu máli er mjög vel látið af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á samstarfinu.

Við vildum færast frá því að vera einberir fundaskipuleggjendur.

- Markmiðið var að koma upp samstarfi um mikilvæg, pólitísk viðfangsefni og skilvirkri skrifstofu sem gerir okkur kleift að styðja við stjórnmálafólk í veigamiklum málum og skapa þannig notagildi fyrir íbúa Norðurlandanna, segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri. Við vildum færast frá því að vera einberir fundaskipuleggjendur.

Niðurstöður úr matinu sýna að þeim markmiðum hefur verið náð. Einn mikilvægasti árangur sem náðst hefur eru þær sértæku rannsóknir sem utanaðkomandi sérfræðingar hafa unnið fyrir Norrænu ráðherranefndina á síðustu árum. Rannsóknirnar hafa haft áhrif á stefnumótun á sviði heilbrigðismála, vinnumarkaðsmála, orku- og umhverfismála og nú síðast norræna velferðarkerfisins. Fjöldi ákvarðana sem teknar hafa verið á síðustu árum eiga uppruna sinn í tillögum settum fram í þessum rannsóknum.

Samstarf síðustu fimm ára virðist almennt hafa einkennst af skilvirkni. Þrátt fyrir að fjármagn til norræns samstarfs hafi minnkað á tímabilinu, hefur ráðherranefndin komið af stað samstarfi á sviði samfélagslegs öryggis og samþættingar, hnattrænnar sjálfbærni, stafrænnar þróunar og kortlagningar Norðurlandanna sem svæðis.

Umbætur verða sannarlega áfram til umræðu.

- Framkvæmdarstjórinn hefur verið drifkraftur í þessu mikilvæga umbótastarfi. Niðurstaðan er jákvæð, segir Margot Wallström, utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Svíþjóðar. En það er mikilvægt að hafa í huga að þetta umbótastarf er einungis upphafið á lengri vegferð, bætir hún við. Umbætur verða sannarlega áfram til umræðu. 


Ráðgjafafyrirtækið Resonans kommunikation vann matið á vormánuðum 2018.

Matsskýrsluna má nálgast hér: Mat á umbótaverkefninu Ný Norðurlönd í Norrænu ráðherranefndinni, 2014-2017:

Niðurstöður úr umbótastarfinu

Stefnumótun: Endurnýjunnorræns samstarfs

Könberg-skýrslan um norrænt samstarf í heilbrigðismálum hefur meðal annars leitt til nánara samstarfs á sviðum sýklalyfjaónæmis, sérhæfðrar hjúkrunar, óvenjulegra greininga, geðlækninga, félagslegs ójöfnuðar í heilbrigðiskerfinu, sem og til aukins samstarfs á sviði lyfja. Samstarfið hefur haft í för með sér betri heilbrigðisþjónustu og betri lyf fyrir íbúa á Norðurlöndum.

Nielson-skýrslan um norrænt samstarf í vinnumarkaðsmálum hefur meðal annars leitt til metnaðarfullrar rannsóknar sem skoðar hvernig tryggja megi örugg störf og góð starfsskilyrði í hnatt- og tæknivæddu samfélagi framtíðar.

Ollila-skýrslan um norrænt samstarf í orkumálum hefur meðal annars leitt til öflugs samstarfs varðandi orkusamband ESB, öflugri norrænna orkurannsókna og nánara orkusamstarfs milli svæða. Aukin skilvirkni í orkusamstarfi skilar sér í ódýrari og grænna rafmagni fyrir íbúa á Norðurlöndum.

Samstarf um alþjóðamálefni og ESB: Sterkari norræn rödd

Sameiginlegar yfirlýsingar hafa áhrif á alþjóðlegar loftslagsviðræður. Dæmi um þetta er sameiginleg yfirlýsing orkumálaráðherra Norðurlandanna um norræna forystu í umhverfisvænum orkulausnum á G20-fundinum í maí 2018

Sameiginlegar aðgerðir Norðurlandanna hafa áhrif á umræður innan ESB. Dæmi um þetta er sameiginleg yfirlýsing samvinnuráðherranna um mikilvægi norræna líkansins í tengslum við félagslegar stoðir ESB.

Umræða um Norðurlönd dregur athygli að gildum og lausnum Norðurlanda og greiðir leiðina fyrir útflutning frá Norðurlöndum. Dæmi um þetta eru skálar Norðurlandanna á loftslagsráðstefnum SÞ í París, Marokkó og Bonn og á komandi fundi í Katowice, sem og um það bil hundrað viðburðir víða um heim sem haldnir hafa verið með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Endurbætt, norrænt verklag: Betri svörun, skjótari ákvarðanir um sameiginlegar aðgerðir til að mæta nýjum áskorunum

Árið 2017 var skipuð sérstök ráðherranefnd um stafræna þróun og hlutverk hennar á tímabilinu 2017-2020 er að vinna að því að Norðurlönd verði áfram frumkvöðlar á sviði stafrænnar þróunar. Meðal verkefna samstarfsnefndarinnar er að gera íbúum Norðurlanda í framtíðinni kleift að nota persónuskilríki sín (e-ID) á öllum Norðurlöndum án tillits til landamæra. Einnig verður lögð áhersla á þróun fimmtu kynslóðar þráðlauss nets. 5G getur skapað nýjar lausnir og ný tækifæri, meðal annars á sviði samgangna, velferðar, umhverfismála, landbúnaðar og orkumála.

Strax í kjölfarið á hryðjuverkaárásum í Evrópu og á Norðurlöndum árið 2015 var komið á fót norrænu samstarfi um lýðræði, aðlögun og öryggi. Í samstarfinu er einblínt á öruggar borgir og að ríkin skiptast á reynslu af baráttu gegn ofstæki og öfgavæðingu.

• Nordic Safe Cities

Í kjölfarið á flóttamannakrísunni 2015-2016 var komið á fót norrænu samstarfi um aðlögun flóttafólks og innflytjenda. Í samstarfinu felst að ríkin skiptast á reynslu, til dæmis af því að auðvelda flóttafólki þátttöku á vinnumarkaði.