COP20 – stefnt að nýjum alþjóðlegum loftslagssamningi

01.12.14 | Fréttir
Miljø, forskning og urfolk får støtte fra det Arktiske samarbeidsprogrammet
Photographer
Nikolaj Bock/Norden.org
Brátt streyma fulltrúar allra landa til loftslagsviðræðna í Perú með alþjóðlegan, bindandi samning um loftslagsmál að markmiði. Norðurlöndin og Norræna ráðherranefndin brúa bilið í viðræðunum.

Dagana 1.–12. desember verða fulltrúar allra landa á 20. alþjóðlega leiðtogafundinum um loftslagsmál (COP20), sem haldinn er í Líma í Perú. Þar munu fulltrúar Norrænu ráðherranefndarinnar kynna nýjar skýrslur um reynslu Norðurlandanna og mögulegar lausnir á loftslagsvandanum. Að sögn Norræna vinnuhópsins um alþjóðlegar loftslagsviðræður (NOAK) er mikill áhugi á þessum upplýsingum í alþjóðasamfélaginu.

„Oft er litið til Norðurlanda í leit að grænum lausnum. Við þykjum að mörgu leyti í fararbroddi á sviði loftslags- og umhverfismála og trúverðugleiki ráðstefnu sem þessarar eykst því með aðkomu okkar,“ segir Harri Laurikka, formaður NOAK.

Oft er tekist á í viðræðum um loftslagsmál og ríkjum getur reynst erfitt að komast að samkomulagi. Hlutverk NOAK er að brúa bilið milli ríkja á fundum og í viðræðum. Fulltrúar hópsins munu hafa í nógu að snúast á ráðstefnunni, en auk fundar með umhverfisráðherrum Norðurlanda taka þeir þátt í fjórum hliðarviðburðum.  

Umhverfisráðherrarnir eiga gott samstarf á sviði loftslagsmála og hefur ýmsum aðgerðum verið ýtt úr vör á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að styðja við hinar alþjóðlegu viðræður og stuðla að mótun framsækinnar loftslagsstefnu.

Á ráðstefnunni í Líma mun ráðherranefndin meðal annars kynna reynslu norrænu landanna undir yfirskriftinni „Nordic action on climate change“.

Norræn ríki gefa háar fjárhæðir í Græna loftslagssjóðinn (Green Climate Fund). Markmiðið með sjóðnum er að frá árinu 2020 verði hægt að verja 100 milljörðum dollara árlega til að aðstoða fátæk lönd við að laga sig að loftslagsbreytingum og draga úr losun sinni.

Lesið þemahefti „Green Growth the Nordic Way“ um þátttöku Norðurlanda í COP20: Green Growth the Nordic Way