Farsæl aðlögun kallar á fleira en samskipti við yfirvöld

20.09.17 | Fréttir
Unge
Photographer
norden.org/Mette Mjöberg Tegnander
Aðlögun flóttafólks og innflytjenda er eitt helsta pólitíska úrlausnarefnið sem Norðurlönd standa nú frammi fyrir. Meginábyrgð á málaflokknum liggur hjá ríki og sveitarfélögum en þátttaka borgaralegs samfélags er þó einnig mikilvæg fyrir farsæla aðlögun. Staðbundin yfirvöld og sveitarfélög geta og eiga að skapa hvata til að greiða fyrir aðlögun, segir forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þá vill forsætisnefndin láta vinna víðtæka greinargerð um leiðir til að auka skilvirkni í norrænu samstarfi á sviði aðlögunarmála.

Forsætisnefndin segir að borgaralegt samfélag beri ekki ábyrgð á aðlögunarmálunum, en að fjölbreytileiki gegni mikilvægu hlutverki til mótvægis við ójöfnuð og aðskilnað í samfélaginu. 

„Markmiðið er að aðstoða hin nýkomnu við að mynda tengsl við aðra en yfirvöld og stuðla þannig að því að þau finni fyrir virkni og nánd í auknum mæli,“ segir Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs.

Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna og Norrænu ráðherranefndarinnar að taka frá fjármagn til að eiga frumkvæði að og greiða fyrir þessu starfi. 

 

„Aðlögun er eitt mikilvægasta úrræðið sem við höfum til að tryggja að samfélög okkar verði örugg og góð á næstu árum. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði er mikilvægt að koma nýbúum inn á vinnumarkaðinn og ég held að mikilvægi þess að fólk finni fyrir samkennd í nærumhverfinu sé vanmetið. Það að finnast maður tilheyra einhvers staðar veitir gleði og lífsfyllingu í daglegu lífi og tengsl við aðra gera fólki kleift að læra nýtt tungumál og fræðast um nýja menningu. Því fagna Norræna velferðarnefndin og flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði því að tillögur okkar séu nú á dagskránni hjá ríkisstjórnunum,“ segir Lennart Axelsson, þingmaður í norrænu velferðarnefndinni.

Stefnumótandi greinargerð

Undanfarin ár hefur Norræna ráðherranefndin látið gera víðtækar greinargerðir á ýmsum sviðum samfélagsins í því skyni að kanna hvernig auka megi skilvirkni í norrænu samstarfi. Síðasta greinargerð var á sviði orkumála.

Nú leggur forsætisnefnd Norðurlandaráðs til að slík stefnumótandi greinargerð verði unnin á sviði aðlögunarmála með það að markmiði að varpa ljósi á vandann frá ýmsum ólíkum sjónarhornum, meðal annars menntun, vinnumarkaði, tungumáli og mismunun. 

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs kom saman í Reykjavík 20. september.