NordBio horfir til framtíðar norræna lífhagskerfisins

17.10.16 | Fréttir
Nordbio billede
Lokaráðstefna NordBio-áætlunarinnar, „Horft til framtíðar. Lífhagkerfið á tímum breytinga á Norðurlöndum“ (Minding the future. Bioeconomy in a changing Nordic reality), var haldin í Reykjavík dagana 5.-6. október. Meðal þess helsta sem Nordbio-áætlunin hefur áorkað er að fjöldi nýrra vara, nýjunga og frumkvöðla hafa skilað sér inn í lífhagkerfið. Það er ekki síður mikilvægt að árangur hefur náðst sem mun gera samstarfi Norðurlandanna kleift að hafa aukin áhrif á stefnumótun í Evrópu og heiminum öllum, efla stöðu okkar í samkeppninni um evrópska rannsóknarfjármögnun og hjálpa okkur að sækja fram á alþjóðamörkuðum.

Sjálfbær framleiðsla og nýting náttúruauðlinda

Í tengslum við NordBio-verkefnið var horft á lífhagkerfið sem heild, og leiddir voru saman sérfræðingar í menntamálum, rannsóknum og nýsköpun annars vegar og fulltrúar iðnaðar og stefnumótunaraðila hins vegar í því skyni að ýta undir sjálfbæra framleiðslu og nýtingu lífrænna náttúruauðlinda.

Árangurinn er margvíslegur, allt frá betri gögnum um lífauðlindir og nýtingu þeirra víðs vegar um Norðurlönd til nýrra aðferða á sviði menntunar og rannsókna, skilvirkari auðlindanýtingar og nýskapandi vöruþróunar. Norrænt lífhagkerfisráð mun leggja sitt af mörkum til norrænu lífhagskerfisáætlunarinnar fyrir árið 2017.

Fimm meginverkefni NordBio voru Biophilia, þar sem sköpunargáfa var virkjuð í námi til að efla áhuga á vísindum, nýsköpun og frumkvöðlastarfi; ERMOND, sem fékkst við viðnámsþrótt vistkerfa og mildun náttúruhamfara; Nýsköpun í norræna lífhagkerfinu, en það verkefni miðar að því að efla vöruþróun og sjálfbæra matvælaframleiðslu; og Marina, en þar er unnið að því að draga úr losun og ýta undir notkun nýrra orkugjafa í iðnaði tengdum hafinu. Fimmta verkefnið var Woodbio, en það miðar að því að gera framleiðslu og nýtingu lífmassa úr norrænum skógariðnaði sem skilvirkasta.

Við höfum náð árangri sem gerir okkur kleift að hafa aukin áhrif á stefnumótun í Evrópu, eflir stöðu okkar í samkeppninni um evrópska rannsóknarfjármögnun og hjálpar okkur að sækja fram á alþjóðamörkuðum.

„Í framhaldi af NordBio hafa orðið til margar nýjar vörur, nýsköpun hefur átt sér stað og fjölmargir frumkvöðlar eru farnir að beina sjónum sínum að lífhagkerfinu,“ segir Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri Matís. „Við höfum náð árangri sem gerir samstarfi Norðurlanda kleift að hafa aukin áhrif á stefnumótun í Evrópu, eflir stöðu okkar í samkeppninni um evrópska rannsóknarfjármögnun og hjálpar okkur að sækja fram á alþjóðamörkuðum.“

Hvernig er hægt að nýta lífmassann til fullnustu?

Lene Lange, rannsóknastjóri og prófessor við danska tækniháskólann DTU og meðlimur Norræna lífhagkerfisráðsins, hvatti í ávarpi sínu Norðurlönd til að taka forystu í þróun öflugs og sjálfbærs lífhagskerfis á heimsvísu. „Lífhagkerfið hefur grundvallarþýðingu vegna þess að við verðum að gera hlutina á nýjan hátt,“ sagði Lange.

„Til þess að hægt verði að draga úr losun þurfum við að skipta út kolefnaauðlindum með endurnýjanlegum lausnum. Við verðum líka að nýta betur lífauðlindir okkar, því við hendum enn að minnsta kosti 40% þeirra. Góðu fréttirnar eru þær að við gætum raunverulega brauðfætt vaxandi íbúafjölda heimsins, sem nálgast nú níu milljarða, með því að fullnýta þau tækifæri sem búa í lífmassanum.“

Við gætum raunverulega brauðfætt vaxandi íbúafjölda heimsins, sem nálgast nú níu milljarða, með því að fullnýta þau tækifæri sem búa í lífmassanum.


Samstarf Norðurlandanna miðar að því að móta þverfaglegt lífhagkerfi sem eflir svæðis- og staðbundinn hagvöxt og skapar störf fyrir velmenntað fólk í strjálbýli. „Sjálfbærni snýst ekki aðeins um náttúruauðlindir og efnahagsmál heldur líka þjóðfélög og staðbundin samfélög,“ sagði Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í opnunarávarpi sínu.

„Tækniþróunin og alþjóðavæðingin hafa valdið staðbundnum efnahagserfiðleikum. Of víða er sótt í ríkulegar auðlindir sem síðan eru fluttar á brott án þess að nein veruleg úrvinnsla eða virðisauki hafi átt sér stað.“

Sjálfbærni snýst ekki aðeins um náttúruauðlindir og efnahagsmál heldur líka þjóðfélög og staðbundin samfélög.

 

Innleiðing nýja lífhagkerfisins

Framsögumenn á ráðstefnunni sögðu mikla þörf á skýrum norrænum áætlunum og stefnumótun á sviði lífhagkerfisins, á áherslu á rannsóknir og þróun, nýsköpun og frumkvöðlastarf, aukna fjárfestingu frá hinu opinbera og einkaaðilum, og sveigjanlegt og nýskapandi menntakerfi. „Ég velti fyrir mér hvort þessi umbreyting í tengslum við lífhagkerfið geti því aðeins tekist ef umbætur verði gerðar hvað varðar vísindalæsi og upplýsingamiðlun,“ sagði Bryan Alexandar, kennari og framtíðarfræðingur.

„Inntaksferlið fyrir sjálfbært lífhagkerfi er í stöðugri þróun,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. „Menntakerfið okkar þarf að vera sveigjanlegt og reiðubúið til að veita nemendum þá færni sem þarf til nýsköpunar. Við þurfum að gera fólki kleift að beita flóknum tæknilegum aðferðum á borð við lífvinnslu sellulósa í tengslum við þróun markaðshæfrar vöru.“

Christine Lang, formaður þýska lífhagskerfisráðsins, segir að skýr upplýsingamiðlun sé nauðsynleg til þess að fá almenning til fylgis við nýja lífhagkerfið. „Lífhagkerfið þarf að verða óaðskiljanlegur hluti af sjálfbærni – af sjálfbærnimarkmiðunum og hringrásarhagkerfinu,“ segir Lang.

„Við verðum líka að gæta að samskiptunum við samfélagið, því án stuðnings þess verður ekkert úr umskiptunum yfir í lífhagkerfið.“

Ungir og hæfileikaríkir einstaklingar sem starfa að lífhagkerfismálum, þar á meðal Haraldur Húgósson og Ásdís Ólafsdóttir, fluttu hvetjandi ávörp um mikilvægi þess að viðhalda jafnvægi samfélags og náttúru. Skilaboðin frá Ásdísi Ólafsdóttur voru skýr: „Við þurfum kynslóð sem vill fara betur með jörðina, ekki kynslóð sem verður að gera það.“

 

Ráðstefnan í stuttu máli

Á ráðstefnunni fóru fram kynningar á vöruþróun sem byggir á sjálfbærri og skilvirkri notkun lífauðlinda. Einnig var meðal annars fjallað um betri skilgreiningar á norræna lífhagkerfinu og kortlagningu þess, eflingu færni, getu og nýsköpunar í námi, og viðnámsþrótt vistkerfa sem leið til að milda áhrif náttúruhamfara.