Nordic Playlist: Ný gátt að norrænni tónlist

07.01.14 | Fréttir
Nýr vettvangur til að kynna sér reglulega nýjar og áhugaverðar útgáfur frá Norðurlöndum opnar formlega í þessari viku. Nordic Playlist vefurinn auðveldar áhugasömum að uppgötva það besta sem er að gerast í norrænni tónlist og kynna sér reglulega nýja og spennandi listamenn – listarnir á síðunni eru sérvaldir af góðkunnu tónlistarfólki og fagaðilum, sem treysta má að hafi puttann á púlsinum.

Nordic Playlist er frí þjónusta sem býður vikulega leiðsögn um heitustu lög og helstu listamenn Norðurlandanna, en tónlistin sem kynnt er verður valin af virtum einstaklingum: tónlistarfólki, plötusnúðum, blaðamönnum og bókurum tónlistarhátíða.


Í hverri viku setja þessir leiðandi einstaklingar saman tíu laga lista sem samanstendur af tveimur af uppáhaldslögunum þeirra frá hverju Norðurlandanna fimm. Hægt er að hlusta á afraksturinn www.jajajamusic.com, en einnig verður listinn kynntur af tónlistarveitunum Deezer, Spotify og WiMP, sem eru samstarfsaðilar.
Auk spilunarlistanna mun í hverri viku birtast á síðunni opinber topp 10 listi yfir söluhæstu og mest spiluðu lögin í hverju landi fyrir sig. Einnig munu birtast viðtöl við þá sem setja saman listana með vangaveltum um stefnur og strauma, sem mun auðvelda fagaðilum og leikmönnum um heim allan að hljóta innsýn í einhverja virkustu og mest spennandi tónlistarflóru heimsins.


Norrænir plötusnúðar hljóta mikið lof um heim allan og hefur hróður þeirra farið mjög vaxandi undanfarið. Aðra hverja viku mun þekktur plötusnúður birta sérbúið DJ-mix á síðunni. Hinn heimsþekkti Kasper Bjørke frá Danmörku hefur leikinn—en hann gefur síðan boltann á okkar alíslenska Sexy Lazer. Eins mun Nordic Playlist vefurinn birta vikulega umfjöllun lag með ungum og efnilegum tónlistarmönnum.
Fyrsti listinn er settur saman af nýskipuðum ritstjóra Nordic Playlist,, Francine Gorman, sem var áður einn ritstjóra vefritsins góðkunna The Line of Best Fit „Nordic Playlist er spennandi framtak sem mun skapa aðdáendum norrænnar tónlistar um heim allan sameiginlegan vettvang til að kynna sér allt það besta sem um er að vera hverju sinni,“ segir Francine, sem fjallar nánar um hvernig hún setti saman listann sinn á síðunni sjálfri.


Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri NOMEX, bætir við: „Norðurlöndin hafa löngum verið þekkt sem miðstöð framúrskarandi tónlistar og raunar hverskonar skapandi starfsemi. Hinsvegar hefur til þessa ekki verið í boði leið til að kynna sér það helsta sem þar er um að vera á einum stað—en tilgangur Nordic Playlist er einmitt að auðvelda aðgang og yfirsýn og gefa okkur Norðurlandabúum um leið tækifæri til að kynnast betur tónlist nágranna okkar.“

Tilgangur spilunarlistans er að auðvelda almenningi aðgang að norrænni tónlist á einum stað og um leið að auka kynningu á henni á heimsvísu.

Verkefnið eru stutt af Norrænu ráðherranefndinni. Ísland fer með formennsku í ráðinu 2014 og Nordic Playlist er eitt af forgangsverkefnum í formennskuáætlun ráðsins.