Norðurlandaráð kynnir aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi

04.04.17 | Fréttir
Whitepaper 12 initiatives
Á þemaþingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi kynntu þingmenn Norðurlandaráðs svokallaða hvítbók, þar sem greint er frá 12 tillögum að nýjum norrænum átaksverkefnum í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.

„Sýklalyfjaónæmi er málefni sem hefur átt hug minn síðan ég gegndi stöðu landbúnaðarráðherra undir lok 10. áratugarins, svo og alla mína starfstíð á vettvangi norræns samstarfs. Þetta er eitt mest áríðandi mál okkar tíma og ég fagna því að Norðurlandaráð leggi í dag fram heildstæða áætlun um að berjast gegn sýklalyfjaónæmi með markvissum tillögum,“ segir Henrik Dam Kristensen frá Danmörku, sem gegnir nú stöðu forseta Norðurlandaráðs í annað sinn.

Þingmennirnir vilja norræna stefnu þar sem litið sé til lengri tíma

Sýklalyfjaónæmi kallar á þverfaglegt átak, á lands-, svæðis- og alþjóðavísu. Öll viðeigandi samstarfssvið þurfa að koma að samhæfðu starfi þar að lútandi, og vandinn verður ekki leystur án markvissra pólitískra aðgerða.

Norðurlandaráð vill að mótuð verði norræn stefna þar sem litið sé til lengri tíma, með eftirfarandi markmið:

  • Að draga úr þörf fyrir sýklalyfjameðferð með bólusetningum og aðgerðum sem fyrirbyggja smithættu.
  • Að takmarka notkun sýklalyfja til meðferðar manna og dýra.
  • Að safna þekkingu um útbreiðslu og útbreiðslumynstur sýklalyfjaónæmis og um æskilega notkun á þeim sýklalyfjum og bólusetningum sem þegar eru til staðar.
  • Að tryggja hvatakerfi til þróunar á nýrri heilbrigðistækni, nýskapandi lyfjum og bólusetningum.
„Víðtækur stuðningur er innan Norðurlandaráðs við það að reka þetta mál áfram, bæði á Norðurlöndum og á alþjóðavettvangi. Sýklalyfjaónæmi er alvarlegt vandamál og Norðurlönd eru í fararbroddi hvað það varðar að takmarka notkun sýklalyfja. Við höfum því mikið að leggja til baráttunnar,“ segir Staffan Danielsson frá Svíþjóð, þingmaður í Norðurlandaráði.

Sameiginlegar aðgerðir Norðurlanda gegn sýklalyfjaónæmi

Hvítbókin er aðgengileg á dönsku og ensku:

„Að takmarka notkun sýklalyfja og taka gagnrýna og stranga afstöðu til lyfjanotkunar yfirhöfuð er aðeins ein þeirra 12 tillagna sem eru í hvítbók Norðurlandaráðs um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi. Hvítbókin inniheldur fjölda góðra og markvissra tillagna og ég fagna því að Norðurlandaráð hafi samþykkt hana í dag,“ segir Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar