Norðurlönd enn einu sinni einstök

02.09.15 | Fréttir
Nordenflaggan
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlönd hafa enn einu sinni sýnt fram á þau geta áorkað hlutum sem virðast ómögulegir, segir Alicia Fjällhed í meistaraprófsritgerð sinni um Áætlunina um að kynna og marka Norðurlöndum stöðu á alþjóðavettvangi.

Hingað til hafa rannsóknir bent til þess, hvort tveggja með athugunum á raunverulegum dæmum og með fræðilegum aðferðum, að sameiginleg kynning á svæðum sem innihalda mörg lönd sé ómöguleg. Sérhagsmunir einstakra landa valda vandkvæðum og erfitt er að setja sér sameiginleg markmið og móta sameiginlegan boðskap.

– Þess vegna varð ég auðvitað ákaflega áhugasöm þegar ég frétti af árangursríku kynningarstarfi Norðurlanda, segir Alicia Fjällhed, sem nú hefur lokið meistaraprófi í upplýsingafræðum.

Ekki bara innantóm orð

Skýringarnar á árangri Norðurlanda eru flóknar, en byrja má að nefna að ekki hefur verið reynt að meðhöndla Norðurlönd sem hverja aðra vöru, sem hægt er að pakka inn í glanspappír og búa til tilheyrandi slagorð. Vörur og þjónusta koma frá ákveðnum stöðum, en sjálfsvitundin á sér rætur í athöfnum fólks, í því sem við gerum hvert með öðru og með öðrum.

Og þar er lykillinn að góðum árangri Norðurlanda. Á Norðurlöndum eru réttu forsendurnar til staðar. Þær eru:

  • Áralangt samstarf í umboði æðstu stjórnenda hvers lands, samstarf sem snýst ekki eðains um orð heldur líka sameiginlegar athafnir.

  • Sameiginleg saga og sameiginleg menningarvitund.

Að sjá mismun sem styrk

Í kynningarstarfi, þar sem að hluta til er beitt sömu aðferðum og í markaðssetningarstarfi, hefði verið einfaldast að kynna einungis jákvæðu þættina í samstarfinu og samskiptunum. Það er einmitt það sem gert hefur verið í mörgum og misheppnuðum tilraunum á þessu sviði.

Í kynningarstarfi Norðurlanda er að vísu bent á ýmislegt sem líkt er í löndunum og menn hafa komið sér saman um grundvallargildi sem gera að verkum að hægt er að tala einum rómi á alþjóðavettvangi. En jafnhliða því er varpað ljósi á mismuninn milli landanna. Honum er lýst þannig að hann sé hluti af skýringunni á velgengni þeirra. Þessi mismunur getur til dæmis leitt til þess að menn skiptist á reynslu í því skyni að finna nýjar og betri sameiginlegar lausnir. Í þessu sambandi er litið á nýja þróun í átt að fjölmenningu sem tækifæri.

Verðmætin sem búa í náttúru Norðurlanda og landfræðilegur munur er annað, og kannski óvænt, dæmi um styrkleika. Þessi þættir gefa stundum litlum og afskekktum byggðum meiri möguleika á að skapa sýnileika og vekja áhuga fólks á Norðurlöndum en byggðir sem eru miðlægari í efnahagslegu tilliti. Þannig getur til dæmis hrifningin af jöklum á Grænlandi eða eldfjöllum á Íslandi opnað dyr sem síðar leiða til pólitísks eða efnahagsleg samstarfs á alþjóðavettvangi. Og öfugt. 

– Það að þið hafið ekki reynt að búa til einfalt og einhliða slagorð heldur skoðað þau tækifæri sem búa hvort tveggja í því sem líkt er og því sem ólíkt held ég að sé lykillinn að góðum árangri, segir Alicia Fjällhed.

Sleppið taumhaldinu

Annað sem greinir kynningarstarf Norðurlanda frá því sem aðrir hafa gert er að menn hafa þorað að sleppa taumhaldinu. Samkvæmt þeim kenningum sem hingað til hafa verið ráðandi er mikilvægt að allir sem koma að kynningarstarfinu á ákveðnu svæði fylgir öllum þáttum áætlunarinnar. Norræna áætlunin segir sögu sem borin hefur verið undir marga og sem allir geta samsamað sig og hún byggir á gildum sem allir geta tekið undir. Í henni eru góð ráð, meðal annars um að forðast að vera „besserwisser“, en hlusta í staðinn á þarfir móttakendanna, og í henni eru mikilvæg verkfæri sem eru til frjálsra afnota. Hún stendur til boða þeim sem vilja starfa á norrænum grundvelli. Hún opnar á tækifæri til frekari þróunar.

Alicia segir að mikilvægt sé að Norræna ráðherranefndin sjái um stjórn og samhæfingu framvegis, en jafnframt að fleiri aðilar og fleiri raddir þurfi að fá tækifæri til að hafa áhrif á norrænu frásögnina. Ekki síst borgaralegt samfélag.

Með framlaginu sem er á fjárhagsáætlun samstarfs Norðurlanda fyrir næsta árs reynir á áætlunina í raunveruleikanum. Þá kemur í ljós hvernig hún reynist.

„Ég held að það eigi eftir að ganga vel,“ segir Alicia Fjällhed. Margir í umheiminum eru áhugasamir um leyndardóma Norðurlanda sem virðast geta gert það sem aðrir eiga erfitt með – að starfa og þróast með öðrum. 

 

Hér er hægt að lesa ritgerð Alicia Fjällheds: http://www.lu.se/lup/publication/5468523