Document Actions

Ný norræn-rússnesk samstarfsáætlun um umhverfis- og loftslagsmál

Í dag ýttu norrænu umhverfisráðherrarnir úr vör nýrri samstarfsáætlun sem hefur það markmið að bæta ástand umhverfisins og takast á við loftslagsbreytingar í Norðvestur-Rússlandi. Áætlunin mun styðja fjölda svæðis- og staðbundinna verkefna og þess er vænst að umhverfislegs ávinnings af henni gæti einnig á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum.

02.11.2016

Magnus Rystedt, framkvæmdastjóri NEFCO og Kimmo Tiilikainen, landbúnaðar- og umhverfisráðherra Finna og formaður norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfismál á árinu 2016

Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

„Velferð Norðurlanda og Norðvestur-Rússlands veltur á góðu ástandi umhverfisins. Norðurlöndin og Rússland eru viljug til samstarfs til að leysa þau umhverfisvandamál sem blasa við í dag. Það þjónar þannig gagnkvæmum hagsmunum svæðanna að eiga áfram raunsætt og hagnýtt samstarf um umhverfis- og loftslagsmál verði áfram eins skilvirkt og kostur er. Við fögnum því nánari stað- og svæðisbundnum tengslum með aðkomu nýrra samstarfsaðila til viðbótar við þá sem fyrir eru, innan sem utan hins opinbera geira,“ segir Kimmo Tiilikainen, landbúnaðar- og umhverfisráðherra Finnlands og formaður norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfismál á árinu 2016.

Þess er vænst að verkefnin skili gagngerum umbótum fyrir umhverfi og loftslag í Norðvestur-Rússlandi og einnig óbeinum árangri fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin og á öllu Barentssvæðinu. Sérstaklega verður hvatt til þess að senda inn umsóknir vegna verkefna sem hafa eftirfarandi markmið:

  • að draga úr mengun
  • að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ósoneyðandi efna
  • að auka líffræðilega fjölbreytni
  • að standa vörð um dýrategundir í útrýmingarhættu
  • að uppræta umhverfisvandamál, s.s. með því að hreinsa mengaða akra
  • að auka getu okkar til að bregðast við og ráða fram úr ófyrirséðum vistfræðilegum hörmungum og neyðarástandi sem hlytist af þeim.

Áætlunin er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni og Barents Hot Spots Facility (BHSF), sem er sjóður undir umsjón norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins NEFCO. Hægt er að sækja um styrki til þess að koma á fót tengslanetum, til miðlunar upplýsinga, uppbyggingar þekkingar, og til fjárfestinga í búnaði, tækni og innviðum.

„NEFCO leggur sérstaka áherslu á umhverfis- og loftslagsmál á norðurslóðum og Barentssvæðinu. Þar eð Barents-samstarfið snýst einkum um svæðisbundið samstarf er aðeins eðlilegt að við styðjum við svæðisbundin verkefni sem kunna einnig að koma „heitum reitum“ og öðrum mikilvægum umhverfismálum til góða,“ segir Henrik G. Forsström, framkvæmdastjóri BHSF.

Áætluninni verður ýtt úr vör snemma á árinu 2017 en þá verður auglýst eftir umsóknum um styrki vegna verkefna á sviði umhverfis- og loftslagsmála, án viðskiptahagsmuna, þar sem samstarfsaðilar eru frá Norðurlöndum og Norðvestur-Rússlandi.

Nýja áætlunin er þáttur í aðgerðum Norrænu ráðherranefndarinnar sem snúa að samstarfi við Rússland, í samræmi við samþykkt norrænu samstarfsráðherranna frá því í ársbyrjun 2016. Nánari upplýsingar á norden.org/Russia

Tengiliðir

Satu Reijonen
Sími +45 33 96 02 00
Netfang sare@norden.org

Heidi Orava
Sími +45 21 71 71 48
Netfang heor@norden.org