Ójöfnuður í heilbrigðiskerfinu: Karlar deyja, konur þjást

29.01.16 | Fréttir
Svend Aage Madsen, chefsåykolog på rigshospitalet
Photographer
Anna Rosenberg/norden.org
Karlmenn á Norðurlöndum þurfa að læra að leita til læknis í tæka tíð. Konur á Norðurlöndum þurfa að verða betri í að segja frá slæmu vinnuumhverfi. Og skynsamlegt væri fyrir þá stjórnmálamenn sem eru að búa heilbrigðiskerfið undir framtíðina að hafa kynjasjónarhorn að leiðarljósi.

Karlar lifa skemur en konur, þeir verða oftar veikir og þeir deyja oftar af sjúkdómum sínum en konur. Þetta er að hluta til afleiðing af verri lífsháttum, að hluta til vegna þess að þeir vilja ekki fara til læknis. Karlmenn eru lagðir inn á sjúkrahús og þurfa dýra sérfræðiþjónustu vegna þess að þeir biðja ekki um læknisaðstoð í tæka tíð. Það væri ávinningur fyrir samfélagið ef karlar færu að velta fyrir sér hvernig þeim liði og færu síðan á heilsugæslustöð ef þörf krefði.

„Karla deyja eins og flugur, en ef þeir eru spurðir svara þeir að þeim líði vel,“ segir Svend Aage Madsen, yfirsálfræðingur á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.

Lítil menntun kemur illa niður á körlum

Konur segja oftar að þeim líði illa. Þær taka oftar veikindaleyfi en karlar og leita oftar til heilsugæslunnar.

Vísindamennirnir Svend Aage Madsen og Solveig Osborg Ose hafa bæði kannað kynjamun í heilbrigðiskerfinu og miðluðu af þekkingu sinni á ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar, „Hvernig líður Norðurlöndum?“, sem haldin var í Turku í Finnlandi 27.–28. janúar.

Svend Aage Madsen sagði frá því að munurinn á ævilengd karla og kvenna minnkaði með auknu jafnrétti. Ísland „vinnur“ í alþjóðlegum samanburði, en Finnland og Danmörk „eiga tæplega skilið að teljast til Norðurlanda“ þegar kemur að ævilengd karla. Menntunarstig er einnig mikilvægur áhrifaþáttur varðandi ævilengd og heilbrigði. En konur höndla lágt menntunarstig betur en karlar og menntunarskorturinn skerðir heilsu þeirra karla verulega.

Feðraorlof bætir heilsuna

Svend Aage Madsen benti á tvenns konar þróun sem hefði mikil áhrif á heilbrigði karla. Karlar eru í fyrsta sinn í sögu mannkyns að verða eftirbátar kvenna í menntun, og það getur haft verulega slæm áhrif á heilsu þeirra. En jafnframt er að verða önnur söguleg breyting sem felst í því að karlar eru farnir að vilja taka fæðingarorlof, og í ljós hefur komið að það hefur góð áhrif á heilsu þeirra.

„Þeim mun meir sem karlar helga sig föðurhlutverkinu, þeim mun oftar taka þeir veikindaleyfi, sem er jákvætt. Feðraorlof verður til þess að þeir gæta betur að eigin heilsu. Það að velta ekki fyrir sér hvernig þeim líður hefur haft skaðleg áhrif á karla,“ segir Svend Aage Madsen.

Niðurstaða Svend Aage Madsens er að móta þurfi sérstaka stefnu í heilbrigðismálum fyrir karla.

Heilbrigðisþjónustan leiti uppi karlana

„Heilbrigðiskerfið þarf að læra hvernig eiga á samskipti við karla með lágt menntunarstig. Það getur meira að segja verið gagnlegt að heimsækja karla á vinnustöðum þeirra og bjóða þeim læknisaðstoð þar.

Karlar þurfa að leita sér aðstoðar fyrr, konur þurfa aftur á móti að læra að lýsa vandamálum í vinnuumhverfi sínu,“ segir Solveig Osberg Ose, ráðgjafi hjá SINTEF, sem er stofnun um iðn- og tæknirannsóknir.

Það gildir um alla fag- og aldurshópa að konur taka sér oftar veikindaleyfi en karlar, og af öllum norrænum hópum eru það norsku konurnar sem taka sér flesta veikindadaga. Konur fá síður sjúkdómsgreiningar en karlar þegar þær leita til heilbrigðiskerfisins vegna vandamála sinna, til dæmis lið- og vöðvaverkja. Í heilbrigðiskerfinu upplifa menn að sjúkdómeinkenni kvennanna séu óljós og huglæg.  

Solveig Osborg Ose stjórnaði viðamikilli fræðilegri úttekt á ástæðum veikindafjarvista kvenna í Noregi. Hún byrjar á því að taka fram að norræna velferðarlíkanið hafi leitt af sér mjög kynskiptan vinnumarkað. Og vegna þess að rannsóknir á vinnuumhverfi fara einkum fram í iðnaði sé enn mjög mikill og hamlandi skortur á upplýsingum um orsakir veikindafjarvista kvenna.

Tvöfalt hlutverk

„Í rannsóknunum er ekki tekið tillit til vandamála í kvennastörfum. Hvaða afleiðingar hefur nándin við sjúklinga, og það ofbeldi sem til dæmis á sér stað í tengslum við umönnun einstaklinga með heilabilun.

Ein tilgáta er að tvöfalt hlutverk kvenna, annars vegar eru þær starfandi á vinnumarkaði og hins vegar bera þær meginábyrgð á heimilinu, geti skýrt of mikið álag og veikindafjarvistir.

Solveig Osberg Ose segir að rannsaka þurfi gildi þessarar tilgátu fyrir hvern einstakan samfélagshóp. Tekjulægstu konurnar geta ekki auðveldlega dregið úr álagi með því að fara í hlutastarf.

Varað við auknum mun

Solveig Osberg Ose bendir á að konur hafi mikinn hvata til að færa sig yfir í störf þar sem karlar eru í meirihluta, en að karlar hafi engan hvata til að fara í kvennastörf. Hún varar við því að innflutningur ódýrs vinnuafls til heilbrigðis- og umönnunarstarfa geti enn dregið úr virðingu starfanna og aukið félagslegan mismun meðal kvenna á Norðurlöndum.

Nokkrar staðreyndir

Ráðstefnan „Hvernig líður Norðurlöndum?“ markaði upphaf þriggja ára verkefnis sem miðar að því að endurnýja norræna velferðarlíkanið. Norræna ráðherranefndin sér um fjármögnun verkefnisins „Opin og nýskapandi Norðurlönd þar sem fólki líður vel 2020 – Jafn aðgangur að velferð, menntun, menningu og vinnu“. Verkefnið byggir á því að velferðarsamfélagið þurfi að þróast á breiðum grundvelli.

Þemu verkefnisins eru velferð, fjölbreytileiki, jöfnuður, jafnrétti og menningarlega sjálfbær þróun. Í tengslum við verkefnið er lögð áhersla á börn og ungmenni. Í starfinu er notast við og höfð hliðsjón af norrænu starfi að rannsóknum og nýsköpun.