Skattavandi norskra lífeyrisþega til meðferðar hjá ríkisstjórnunum

08.04.14 | Fréttir
Knut Storberget
Photographer
Audunn Nielsson/norden.org
Norðurlandaráð leggur til að norrænu ríkisstjórnirnar hefji endurskoðun á norræna tvísköttunarsamningnum, og að skattayfirvöld í Noregi og Svíþjóð fari yfir mál norskra lífeyrisþega í Svíþjóð í því skyni að afhjúpa hvort þeim hafi verið veittar rangar upplýsingar og leiðrétta skattaálögur þeirra í samræmi við útkomuna. Tillagan var samþykkt á árlegu þemaþingi Norðurlandaráðs sem haldið var þann 8. apríl 2014 á Akureyri.

Tillagan kom fyrir Norrænu ráðherranefndina í kjölfar þess að norskum lífeyrisþegum, sem búsettir voru í Svíþjóð, voru veittar rangar upplýsingar eftir að breytingar voru gerðar á tvísköttunarsamningnum árið 2008. Málið komst á dagskrá borgara- og neytendanefndar Norðurlandaráðs þann 24. ágúst 2012, en telst nú afgreitt af hálfu nefndarinnar.

„Við í borgara- og neytendanefnd fögnum því að tillaga okkar um endurskoðun og nánari útskýringu á ábyrgð hlutaðeigandi yfirvalda í þessu máli verði nú lögð fyrir ríkisstjórnirnar. Ennfremur förum við þess á leit við ríkisstjórnir Noregs og Svíþjóðar að skattaálögur þeirra lífeyrisþega, sem hafa hlotið óréttláta meðferð vegna þessa, verði leiðréttar. Það er allra hagur að hreinsað verði til í þessu máli í eitt skipti fyrir öll,“ segir Knut Storberget (Ap) frá Noregi, talsmaður nefndarinnar.

Norðurlandaráð beinir nú eftirfarandi tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar:

  • Að hún efni til endurskoðunar á „Samningi milli Norðurlanda til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir“ í því skyni að skýra orðalag í reglunum.
  • Að hún hefji rannsókn á því hvernig hægt er að tryggja að skattstjóraembættin og önnur yfirvöld sem málið varðar túlki tvísköttunarsamninginn á sama hátt og veiti almenningi réttar og ótvíræðar upplýsingar um reglurnar.
  • Að hvetja skattayfirvöld í Noregi og Svíþjóð til að fara yfir mál norskra lífeyrisþega í Svíþjóð í því skyni að afhjúpa hvort þeim hafi verið veittar rangar upplýsingar og leiðrétta skattaálögur þeirra í samræmi við útkomuna.