Document Actions

Styðja samnorræn skilríki

Norræna velferðarnefndin er fylgjandi því að rafræn skilríki verði sameiginleg á Norðurlöndum. „Rafræn skilríki eru lykill að bankaþjónustu, atvinnu, námi og viðskiptum á milli landa. Það er tiltölulega einfalt að útfæra þau á þann hátt að þau gildi alls staðar á Norðurlöndunum, ef pólitískur vilji er fyrir hendi,“ segir formaður nefndarinnar, norska þingkonan Bente Stein Mathisen.

28.06.2017

„Rafræn skilríki eru lykill að bankaþjónustu, atvinnu, námi og viðskiptum á milli landa. Það er tiltölulega einfalt að útfæra þau á þann hátt að þau gildi alls staðar á Norðurlöndunum, ef pólitískur vilji er fyrir hendi,“ segir formaður nefndarinnar, norska þingkonan Bente Stein Mathisen.

Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org

Norðurlandaráð vill auðvelda einstaklingum að flytjast búferlum, stunda nám eða reka fyrirtæki milli Norðurlandanna. Sameiginlegt kennitölukerfi er ekkert skilyrði fyrir því að hægt sé að nota rafræn skilríki yfir landamæri. Það nægir að geta tengt kennitölu viðkomandi einstaklings við opinberar grunnupplýsingar um hann í löndunum.

Grunnupplýsingarnar er meðal annars að finna í þjóðskrá og skrám yfir sjúkradagpeninga, atvinnuleysisbætur og lífeyri. Segja má að rafræn skilríki séu lykillinn að dyrum sem eru lokaðar fólki sem hefur ekki kennitölu í dvalarlandinu.

Gagnkvæm viðurkenning á rafrænum skilríkjum á Norðurlöndum

Nefnd í Norðurlandaráði leggur til eftirfarandi við ríkisstjórnir landanna:

  • Að komið verði á gagnkvæmri viðurkenningu á rafrænum skilríkjum á Norðurlöndum.
  • Að komið verði á gagnkvæmri viðurkenningu á skilríkjum sem hagstofur landanna gefa út.
  • Að tryggt verði að rafræn skilríki og rafrænar undirskriftir verði viðurkennd í sambærilegum kerfum hinna Norðurlandanna, á öllum sviðum samfélagsins og að norrænir borgarar lendi ekki dags daglega í vandræðum með að gefa deili á sér.

Þá leggur nefndin til að efnt verði til hringborðsumræðna í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina. Fulltrúum bankageirans og atvinnulífsins verði boðið til samræðna um hvernig kennitalan er skilyrði fyrir því að gerðir eru samningar, og hvernig hægt er að innleiða samnorræn rafræn skilríki á lipran hátt.

Einföld og ódýr lausn

Sameiginlegt kennitölukerfi á Norðurlöndum yrði kostnaðarsamt og tímafrekt þar sem samræma þyrfti ólík upplýsingatæknikerfi landanna. Mun einfaldara og ódýrara er að samræma þróun rafrænna skilríkja á Norðurlöndum með sameiginlega nýtingu þeirra í huga en að byggja upp sameiginlegt kennitölukerfi. 

Ekki þarf að þróa ný rafræn skilríki til þess að hægt verði að nota þau hvarvetna á Norðurlöndum heldur nægja þau skilríki sem eru í notkun í löndunum í dag. Tilskipun ESB um rafræn skilríki og undirskriftir við rafrænar færslur kveður á um að rafræn skilríki, sem gefin eru út í öðrum ESB-löndum, skuli tekin gild til jafns á við skilríki sem gefin eru út í viðkomandi landi. Forkannanir sem Norðmenn og Svíar hafa gert gefa tilefni til bjartsýni.

Hvað eru rafræn persónuskilríki?

Segja má að rafræn skilríki séu lykillinn að dyrum sem eru lokaðar fólki sem hefur ekki kennitölu í dvalarlandinu.

Rafræn skilríki eru þegar í notkun í löndunum, t.a.m. auðkennislyklar að bönkum og kóðar sem veita aðgang að opinberri þjónustu. Rafræn skilríki eru lykill að bankaþjónustu, atvinnu, námi og viðskiptum á milli landa. Það er tiltölulega einfalt að útfæra þau á þann hátt að þau gildi alls staðar á Norðurlöndum.

 „Okkar lausnir eru á heimsmælikvarða og ef við vinnum saman getum við einnig skapað besta kerfið á milli landa,“ segir Tor Alvik, yfirmaður hjá Direktoratet for forvaltning og IKT í Noregi.

Tillaga um norræn borgararéttindi breytist í rafræn skilríki

Tillaga flokkahóps miðjumanna í Norðurlandaráði, sem fjallaði upphaflega um norræn borgararéttindi / sameiginlega norræna kennitölu, hefur vakið mikla athygli á árinu.

Tengiliðir

Frøydis Johannessen
Sími +45 21 71 71 44
Netfang frjo@norden.org

Jenny Pentler
Sími +45 24 69 94 45
Netfang jepe@norden.org