Yfirlýsing Norðurlandaráðs um fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn öfgastefnu

26.03.15 | Fréttir
Höskuldur Þórhallsson, Nordisk Råds præsident 2015 og Britt Bohlin, direktør for Nordisk Råd
Photographer
Nina Hviid Jørgensen
Frá örþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 26. mars 2015

„Árásirnar í París og Kaupmannahöfn minna okkur á að við verðum að vinna gegn öfgastefnu og fordómum í samfélögum Norðurlanda. Tjáningarfrelsi og lýðræði eru grundvallargildi sem eru meðal hornsteina hinna opnu, norrænu velferðarsamfélaga. Í Norðurlandaráði eru eins og víðar margir mismunandi flokkar með ólíkar skoðanir. En við virðum það að veita verður mismunandi skoðunum svigrúm.

Við verðum í sameiningu að standa vörð um gagnsæi og tjáningarfrelsi sem eru grundvallarforsendur þess að hægt sé að lifa góðu lífi á Norðurlöndum. Tjáningarfrelsið er friðhelgur réttur. Opin, frjáls og lýðræðisleg samfélög Norðurlanda geta virst viðkvæm, en það er einmitt það svigrúm sem gefist hefur fyrir mismunandi viðhorf sem hefur gert samfélög okkar sterk.

Norðurlandaráð styður ríkisstjórnir Norðurlanda sem hafa komist að samkomulagi um norrænt samstarf um fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn öfgastefnu. Norðurlandaráð leggur einnig áherslu á það að staðbundin yfirvöld og aðrir aðilar í borgaralegu samfélagi komi að þessu starfi.

Samstarfsnetið á að styrkja það starfs sem unnið er til að fyrirbyggja útbreiðslu öfgastefnu í einstökum löndum. Í samstarfinu felst meðal annars að löndin geti nýtt sér reynslu hvers annars og starfað saman að tilteknum rannsóknarverkefnum, til dæmis um einstaklinga sem ferðast til átakasvæða á borð við Sýrland. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að öfgahópum takist að laða að ungmenni frá Norðurlöndum. Nánara samstarf Norðurlanda um þetta sameiginlega verkefni getur hjálpað til.

 

Norðurlandaráð hafði upprunalega í hyggju að þinga í Brussel. Ástandið í öryggismálum eftir hryðjuverkaárásina á skoptímaritið Charlie Hebdo í París 7. janúar og á verslun gyðinga 9. janúar gerði að verkum að skipulagning þingsins í Evrópuþinginu varð svo flókin að flytja varð það til Kaupmannahafnar. Hinn 14.-15. febrúar voru einnig gerðar banvænar árásir í Kaupmannahöfn, fyrst á umræðufund um háð og tjáningarfrelsi og nóttina eftir á samkomu í samkunduhúsi gyðinga. Norðurlandaráð hélt fast í það að halda þingið í Kaupmannahöfn, en ákveðið var að meginviðfangsefni þess yrðu fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgastefnu.