Atvinnuleit í Finnlandi

Työnhaku Suomessa
Hér er sagt frá atvinnuleit í Finnlandi og því hvernig sækja má um vinnu í Finnlandi frá öðru landi. Hér segir einnig frá því hvað skal gera ef maður kemur atvinnulaus í atvinnuleit til Finnlands.

Þú getur sótt um vinnu í Finnlandi eða frá öðru landi áður en þú kemur til Finnlands. 

Einnig er hægt að koma til Finnlands meðan á atvinnuleit stendur og fá þar atvinnuleysisbætur, en þá þarf að skrá sig á atvinnuleysisskrá í brottfararlandinu með góðum fyrirvara. Nánari upplýsingar  eru hér fyrir neðan, sjá tengilinn „Atvinnulaus til Finnlands í atvinnuleit“.

Almennar upplýsingar um það að starfa í Finnlandi og málefni því tengd eru á síðunni Að starfa í Finnlandi. Uppýsingar um ráðningarsamninga eru á síðunni Réttindi og skyldur launafólks í Finnlandi.

Atvinnuleit í Finnlandi

Hægt er að skrá sig í atvinnuleit hjá TE-þjónustunni , sem er vinnumálaskrifstofa. Hafir þú finnskt rafrænt auðkenni getur þú einnig notað það til að skrá þig í atvinnuleit á vefnum.

Gott er að kynna sér vefþjónustu Vinnumarkaðstorgsins (Työmarkkinatori). Hún býður upp á ýmsar þjónustuleiðir fyrir fólk í atvinnuleit, svo sem ráðgjöf auk ýmiss konar námskeiða og þjálfunar. Á vefsvæði TE-þjónustunnar er einnig tengill á leitarsíðu fyrir laus störf, þar sem finna má upplýsingar um öll þau lausu störf sem skráð hafa verið hjá TE-þjónustunni.

Mörg fyrirtæki og stofnanir auglýsa laus störf á eigin heimasíðum, gegnum tengslanet sín eða gegnum ráðningarfyrirtæki. Störf innan opinberrar stjórnsýslu eru auglýst á síðunni Valtiolle.fi.

Lausar stöður eru einnig auglýstar í dagblöðum og á vefsíðum dagblaða. Hægt er að lesa helstu finnsku dagblöðin í lestrarsölum á bókasöfnum finnsku sveitarfélaganna. 

Einnig er gott að nýta eigin tengslanet í atvinnuleit. Mörg ný störf eru þess eðlis að ráðið er í þau án opinberra auglýsinga.

Atvinnuleit frá öðru landi

EURES (European Employment Services) er atvinnumiðlun Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en auk ESB-landa tekur hún til Noregs, Íslands, Lichtenstein og Sviss. Á vefsvæði EURES  er hægt að skoða auglýsingar um lausar stöður frá vinnumálastofnunum aðildarlandanna.

Þar eru einnig tengiliðaupplýsingar EURES-ráðgjafa í hinum ýmsu löndum. EURES-ráðgjafi í þinni heimabyggð getur aðstoðað þig varðandi málefni sem tengjast því að starfa í Finnlandi. 

Einnig er að finna gagnlegar ábendingar hér fyrir neðan undir fyrirsögninni Atvinnuleit í Finnlandi. Fyrirtæki auglýsa stöður á sænsku og ensku ef færni í þessum tungumálum er krafist til að gegna viðkomandi starfi.

Atvinnulaus til Finnlands í atvinnuleit

Atvinnulaust fólk frá aðildarlöndum ESB og EES heldur atvinnuleysisbótum frá brottfararlandi sínu í lengsta lagi í þrjá mánuði eftir að komið er til Finnlands í atvinnuleit. Til að fá atvinnuleysisbætur áfram greiddar þarf að fylla út eyðublað PD U2 eða E303 í brottfararlandinu og skrá sig í atvinnuleit hjá TE-þjónustunni.

Áður en þú heldur til annars lands í atvinnuleit skaltu hafa samband með góðum fyrirvara við þá stofnun sem greiðir þér atvinnuleysisbætur og kynna þér skilyrði, tímamörk og mögulega bið eftir málsmeðferð. Þú finnur nánari upplýsingar á upplýsingasíðum brottfararlands þíns um atvinnuleysisbætur og hjá Vinnumarkaðstorginu.

Fái fólk vinnu í Finnlandi fær það almannatryggingar þar á sömu kjörum og annað vinnandi fólk þar í landi. Meginreglan er að það hættir þá að borga í atvinnuleysissjóð þess lands sem áður var starfað í og byrjar að greiða í samsvarandi sjóð í Finnlandi.

Fái einstaklingur í atvinnuleit ekki vinnu í Finnlandi innan þriggja mánaða frá komunni þangað, og vilji hann ekki tapa rétti sínum til atvinnuleysisbóta, þarf hann að snúa aftur til heimalandsins.

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna