10 staðreyndir um jafnrétti

Mand og kvinde sidder i en park
Photographer
Yadid Levy/Norden.org
Jafnréttismál eru ofarlega á baugi á Norðurlöndum. Reynsla okkar sýnir að jafnrétti er ekki aðeins réttlætismál, heldur einnig efnahagsleg nauðsyn. Jafnréttið er einn af hornsteinum norrænu velferðarsamfélaganna og í umheiminum er mikil eftirspurn eftir því að fræðast um reynslu okkar.

1. Á Norðurlöndum eru fleiri konur á vinnumarkaði en víðast hvar annars staðar í heiminum. 74 prósent norrænna kvenna eru á vinnumarkaði; nokkru hærra hlutfall en meðaltal OECD-landanna, sem er 66 prósent. Það stafar af því að í norrænu löndunum eiga allir kost á umönnun og aðhlynningu fyrir börn og aldraða, að menntunarstig kvenna er hátt og að bæði mæður og feður eiga rétt á fæðingarorlofi. Á Íslandi eru 82 prósent kvenna á vinnumakaði, en Sviss, Svíþjóð, Noregur og Danmörk fylgja fast á eftir.

 

2. Réttindi til sömu launa fyrir sömu vinnu eru mikilvægt jafnréttismarkmið sem lögbundið er í öllum norrænu löndunum. En rétt eins og annars staðar í heiminum er launamunur kynja til staðar á Norðurlöndum, sem stafar meðal annars af ólíku starfsvali kvenna og karla. Á Norðurlöndum er launamunur kynjanna 15,4 prósent að meðaltali. Í Evrópusambandinu er hann 16,7 prósent. Þessi prósentumunur á heildartímakaupi karla og kvenna er reiknaður sem hlutfall af heildartímakaupi karla.

 

3. Norrænn vinnumarkaður einkennist af ríkri þátttöku kvenna, en einnig af sterkri kynjaskiptingu. Konur og karlar starfa í ólíkum geirum, nokkuð sem kallað hefur verið „the Nordic gender paradox“. 46 prósent kvenna á Norðurlöndum vinna hefðbundin kvennastörf, svo sem við umönnun og kennslu. Aðeins 13 prósent karlanna starfa í þessum geirum. Kvennastörfin eru oft láglaunastörf en karlastörfin hálaunastörf.

 

4. Mikilvægt er fyrir norrænu löndin að koma á jafnrétti á vinnumarkaði og hefur ójöfn dreifing hlutastarfaverið ofarlega á baugi. Sú staðreynd að konur sinna hlutastörfum í meira mæli en karlar hefur áhrif á efnahagslífið, á launaþróun kvenna og eftirlaun þeirra. 22,5 prósent norrænna kvenna vinna hlutastörf, sem er stærra hlutfall en annars staðar í Evrópu þar sem 21,5 prósent kvenna sinna hlutastörfum að meðaltali.

 

5. Hjá barnafjölskyldum á Norðurlöndum nemur kostnaður við dagvistun barna um 10 prósentum af hreinum tekjum. Í löndum þar sem dagvistun er umtalsvert dýrari borgar það sig ekki alltaf fyrir báða foreldra að vinna – og hvort ætli það séu þá mæður eða feður sem verði heima með börnin? Aðgengi að dagvistun fyrir alla hefur tvímælalaust mikið að segja fyrir jafnréttið. Í Bandaríkjunum er 26 prósentum af útgjöldum heimilisins varið í dagvistun barna og 34 prósentum í Bretlandi.

 

6. Það að báðir foreldrar eigi möguleika á að samþætta vinnu utan heimilis og barneignir hefur lengi verið forgangsmál á sviði jafnréttismála á Norðurlöndum. Foreldrar á Norðurlöndum eiga að meðaltali rétt á orlofi frá vinnu í 345 daga fyrir hvert barn. Fjöldi orlofsdaga er breytilegur í norrænu löndunum. Lengsta fæðingarorlofið er í Svíþjóð. Þar er það 70 vikur, en á Íslandi er það styst, eða 40 vikur.

 

 7. Feður á Norðurlöndum taka meira fæðingarorlof en feður heimsins að meðaltali. Ísland og Svíþjóð eru fremst í flokki Norðurlandanna hvað varðar fjölda feðra sem taka fæðingarorlof, en á Íslandi er hlutfall karla sem tekur orlof 28% og í Svíþjóð 25%. Samkvæmt sænskri rannsókn hækka ævitekjur mæðra um 7% fyrir hvern mánuð fæðingarorlofs sem maki þeirra tekur.

 

8. Í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð er hæsta hlutfall fyrirtækja með sveigjanlegan vinnutíma í Evrópu. Meira en helmingur vinnandi fólks á Norðurlöndum hefur möguleika á að aðlaga vinnutíma sinn eftir aðstæðum, sem auðveldar bæði konum og körlum að samþætta barneignir krefjandi og áhugaverðri vinnu.

 

9. Á Norðurlöndum eru fleiri konur með háskólamenntun en karlar. 61 prósent þeirra sem ljúka háskólaprófi eru konur. Ef norrænir vinnustaðir bæru gæfu til að nýta þessa færniauðlind í ríkari mæli hefðu Norðurlönd betri forsendur til þess að ná markmiðum sínum á sviði jafnréttismála.

 

10.  Þriðji hver yfirmaður á Norðurlöndum er kona (36%), sem er svipað og meðaltalið í löndum Evrópu.  Konureru betur menntaðar, en það endurspeglast þó ekki í hlutfalli kvenna sem gegna stjórnunarstöðum. Þetta merkir að fjárfesting samfélagsins í menntun og þekkingu skilar sér ekki sem skyldi.