Fullorðinsfræðsla

Mennesker på café
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Menntun fyrir alla, á öllum skeiðum ævinnar, er yfirlýst markmið í norrænu samstarfi á sviði menntamála. Þetta á við um hvers konar menntun, nám og símenntun í menntakerfinu, í fullorðinsfræðslu, endurmenntun og á vinnumarkaði. Ennfremur á þetta við í margs konar öðru samhengi þar sem fólk tileinkar sér eitthvað nýtt og eykur þekkingu sína, hæfni og kunnáttu.

Það er markmið í norrænu samstarfi að öllum gefist kostur á að læra og þroskast ævilangt. Þessu markmiði er m.a. náð með því að efla samstarf á sviði þekkingar og greiningar á helstu viðfangsefnum fullorðinsfræðslu með það fyrir augum að auka grunnfærni og -þekkingu fullorðinna. Ennfremur með því að auðvelda fullorðnum að ljúka námi og bæta umgjörð starfsnáms á vinnustöðum.

Samstarfsaðilar

Þeir aðilar sem koma helst að norrænu samstarfi um fullorðinsfræðslu og símenntun eru Norræna tengslanetið um fullorðinsfræðslu (NVL) og Nordplus, en hún er viðamesta áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði símenntunar.

NVL er vettvangur norrænu þjóðanna þar sem þær bera saman reynslu sína af starfi og stefnumótun í löndunum. Starfið fer fram í tengslanetum og á fundum þar sem unnar eru greiningar og samanburðarrannsóknir, staðið að upplýsingastarfi og kynningu á líkönum og aðferðum sem skilað hafa góðum árangri.

Í starfsemi NVL er sjónum m.a. beint að nýsköpun í fullorðinsfræðslu, námi á vinnumarkaði, ráðgjöf, námsmati og sveigjanleika í námi.
Í fréttabréfi NVL eru birtar fréttir af menntamálum í norrænu löndunum og upplýsingar um nýjungar, endurbætur og aðgerðir auk upplýsinga um norrænar ráðstefnur. Fréttir eru birtar jafnóðum á heimasíðu NVL. Ellefu tölublöð af fréttabréfinu koma út á ári, á skandinavísku, finnsku og íslensku, og hægt er að fá þau send jafnóðum með tölvupósti. 

Nordplus Voksen er áætlun á sviði almennrar og starfsmiðaðrar fullorðinsfræðslu sem heyrir undir Nordplus-áætlunina. Markmiðið með henni er að efla lykilfærni fullorðinna og viðurkenninguá óformlegri menntun, gera fullorðinsfræðslu betur í stakk búna til að kallast á við þær áskoranir sem almenningur stendur frammi fyrir í nútímasamfélagi og bæta samspilið milli fullorðinsfræðslu og vinnumarkaðar. Nordplus styður við nemendaskipti, stofnun tengslaneta og samstarfsverkefni milli norrænu landanna og Eystrasaltslandanna. Allir aðilar, einnig þeir sem ekki eiga aðild að NVL, geta sótt um styrki Nordplus Voksen vegna samstarfs um fullorðinsfræðslu. Samstarf á sviði Nordplus Voksen getur t.d. verið undirbúningsheimsókn, nemendaskipti, kennaraskipti, samstarfsnet og verkefni.

PIAAC (Program for the International Assessment of Adult Competencies)

Norræna ráðherranefndin hefur styrkt norrænt PIACC-verkefni um tengslanet og ritun norrænnar PIACC-skýrslu. PIAAC (Program for the International Assessment of Adult Competencies) er verkefni á vegum Efnahags og framfarastofnunarinnar, OECD. Norræn PIACC-skýrsla, sem var kynnt um miðjan maí 2015, tekur til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar auk Eistlands.

Gögnunum var safnað í 24 löndum á árunum 2011 og 2012. Tekin voru viðtöl við úrtak borgara á aldrinum 16–65 ára þar sem grunnfærni þeirra í lestri, reikningi og lausnaleit með upplýsingatækni var prófuð. Meðal helstu niðurstaðna norrænu skýrslunnar má nefna að Norðurlöndin skara fram úr öðrum PIAAC-löndum hvað grunnfærni fullorðinna varðar.