Náttúrulegar lausnir

Norrænt samstarf er gott verkfæri í þeirri vegferð að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Liður í því starfi Norrænu ráðherranefndarinnar er að hún hefur eyrnamerkt 26 milljónir króna fyrir fjögurra ára áætlun um náttúrulegar lausnir á Norðurlöndum. Áætlunin byggir á fimm verkefnum sem munu standa frá 2021 til 2024.

Markmiðið með áætluninni er að styrkja þekkingargrunn og samstarf milli norrænu landanna um náttúrulegar lausnir, endurheimt, mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum og blágræna innviði til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vernda og bæta líffræðilega fjölbreytni.

Litið er svo á að náttúrulegar lausnir séu mikilvægur liður í starfi að loftslags- og umhverfismálum og líffræðilegri fjölbreytni og gagnsemi þeirra er margvísleg. Náttúrulegar lausnir geta til dæmis verið sjálfbær nýting svæðis og auðlinda, vernd og endurheimt mýra og votlendis eða endurheimt eða opnun vatnsfalla.

Vísindafólk telur að náttúrulegar lausnir geti leyst þriðjunginn af þeim samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda sem þarf til þess að tryggja að hnattræn hlýnun fari ekki yfir þær tvær gráður sem kveðið er á um í Parísarsamkomulaginu. Náttúrulegar lausnir eru einnig liður í því að draga úr tapi á líffræðilegri fjölbreytni, auk þess sem sannað er að slíkar lasnir hafa jákvæð áhrif á fleiri skilyrði í samfélaginu, svo sem matar- og vatnsöryggi og liðan fólks.

Náttúrulegar lausnir eru sóttar í náttúruna og studdar af henni, þær eru hagkvæmar og þeim fylgja jafnframt umhverfislegir, félagslegir og fjárhagslegir kostir auk þess sem þær hjálpa til við að byggja upp seiglu. Náttúrulegar lausnir stuðla að sífellt margbreytilegri náttúru og náttúrulegri starfsemi og ferlum í borgum og landslagi með aðlöguðum aðgerðum sem fara vel með auðlindir og eru kerfisbundnar.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Sameiginlegur listi yfir norrænar náttúrulegar lausnir

Norrænu löndin vinna með mismunandi hætti að náttúrulegum lausnum og að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar almennt. En þörf er á að draga upp heildarmynd af þeim verkefnum sem verið er að vinna og því hvað gert er á Norðurlöndum til að vernda og endurreisa náttúruleg vistkerfi og styðja sjálfbæra neyslu. Verkefnin í áætluninni spanna breitt svið, allt frá samræmingu aðferða og kerfa, ábatagreingar og lista yfir landsbundnar eða svæðisbundnar náttúrulegar lausnir. Þannig geta Norðurlöndin enn frekar miðlað reynslu og þekkingu.

Verkefnin fimm

  1. Aðlögun náttúrulegra lausna í norrænu samhengi. Kortlagning svæðisbundinna og landsbundinna náttúrulegra lausna á Norðurlöndum.
  2. Landsbundin dæmi og prófanir. Kolefnisbinding, líffræðileg fjölbreytni og loftslagsaðlögun á kolefnisríkustu búsvæðunum, svo sem í bláum skógi og mýrlendi.
  3. Stefnumörkun og þróun. Gert er ráð fyrir að verkefninu sé stýrt á landsvísu og svæðisbundið. Það veitir sameiginlegar norrænar leiðbeiningar um hvernig löndin geta fylgt eftir og hrint samningi SÞ um líffræðilega fjölbreytni, CBD, í framkvæmd með náttúrulegum lausnum og hugsanlega um hvernig hægt sé að fella það inn í LULUCF-hluta IPCC og Parísarsamkomulagið.
  4. Leiðbeiningar og dæmi til eftirbreytni. Þróa leiðbeiningar um dæmi til eftirbreytni, „best practice“ og aðferðir til að innleiða náttúrulegar lausnir sem hægt er að nota alls staðar á Norðurlöndum. Notkun dæma frá hverju landi fyrir sig við þróun og prófanir til að finna bestu lausnirnar, þróun grænna innviða, aðferða og verkfæra til að ná sem bestum árangri bæði fyrir loftslag og líffræðilega fjölbreytni.
  5. NordGen: Varðveisla auðlinda í genum og loftslagsaðlögun. Varðveisla og skráning norrænna auðlinda í genum með áherslu á villtar plöntur sem eru skyldar ræktuðum plöntum.

Um áætlunina

Umhvørvisstovan, umhverfisstofnun Færeyja, heldur utan um áætlunina fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar. Stýrihópur með þátttakendum frá nokkrum norrænum löndum undir stjórn Noregs fer með daglega stjórn. NordGen stýrir fimmta verkefninu, Crop Wild Relatives, en það er náttúruleg lausn sem tekur til líffræðilegrar fjölbreytni, loftslagsbreytinga og fæðuöryggis.