Ráðningarkjör

Verdensure
Photographer
Ricky John Molloy
Starfsfólki Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar gefst kostur á að starfa í alþjóðlegu umhverfi með aðsetur í Kaupmannahöfn. Mikið er um ferðalög til annarra landa og vinnan fer fram í ráðstefnusölum og þinghúsum svo eitthvað sé nefnt. Allt starfsfólkið vinnur að því að styrkja enn frekar eitt öflugasta svæðissamstarf í heimi.
Launa- og ráðningarkjör

Skrifstofur Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs eru alþjóðastofnanir og því eru launin skattfrjáls. Í staðinn greiðist gjald sem rennur til norrænu ríkjanna.
Starfsfólki bjóðast sérstök launa- og starfskjör.

Allt starfsfólk Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins er ráðið á svonefndum norrænum kjörum. Nokkur störf eru undanskilin, þar á meðal afleysingar, afmörkuð verkefni og hlutastörf námsfólks. Norræn ráðningarkjör eru á margan hátt hagstæð, en þau fela einnig í sér að ráðningartímabilið er að hámarki fimm ár, og hugsanlega framlengt í þrjú ár að hámarki. Hámarksráðningartímabilið er átta ár.

Ríkisstarfsfólk á Norðurlöndum á rétt á launalausu leyfi vegna starfa hjá Norðurlandaráði eða Norrænu ráðherranefndinni, þó ekki lengur en í átta ár. 

Mannauðsdeild Norræna hússins í Kaupmannahöfn veitir nánari upplýsingar um launa- og ráðningarkjör: [hr@norden.org]. Starfsfólk deildarinnar svarar auðfúslega spurningum þínum.

Sömu ráðningarkjör gilda hjá Norrænu ráðherranefndinni, Norðurlandaráði og Norræna menningarsjóðnum nordiskkulturfond.org.

Vinnutími og frí

Vinnutíminn er að mestu sá sami og hjá ríkisstarfsfólki í Danmörku. Fjöldi vinnustunda á viku er 38 að meðaltali, en vinnudagar eru styttri á sumrin en á veturna. Á vetrarmánuðum, september–maí, er fjöldi vinnustunda 39 á viku. Vinnutíminn er kl. 8:30–16:30 (nema á föstudögum til 15:30). Á sumrin, júní–ágúst, er fjöldi vinnustunda 35 á viku. Vinnutíminn er sveigjanlegur og hægt er að taka tvo frídaga á mánuði í staðinn fyrir yfirvinnutíma.

Orlofsdagar eru 37 talsins.

Lífeyrisgreiðslur

Nýtt starfsfólk er skráð sér að kostnaðarlausu í lífeyrissjóð opinbers starfsfólks í Danmörku. Að ráðningartíma loknum heldur starfsfólkið lífeyrisréttindum hjá danska ríkinu. Lífeyrisréttindi eru veitt þegar starfsmaður hefur starfað hjá okkur í eitt ár. Upphæð lífeyrisins ræðst af launum í lok ráðningartímabilsins og fjölda fullra starfsára hjá Norrænu ráðherranefndinni. 

Lífeyrisupplýsingar fyrir nýtt starfsfólk

 

Vellíðan og heilsubót

Við leggjum áherslu á að starfsfólkið sé ánægt og að því líði vel í vinnunni og utan hennar. Boðið er upp á ýmis hlunnindi sem stuðla að vellíðan starfsfólksins.

Starfsfólkið fær árlegan líkamsræktarstyrk til að greiða fyrir aðild að íþróttamiðstöð, aðgang að sundlaug eða afnot af badminton- eða tennisvelli.

Starfsfólkið á rétt á ákveðnum fjölda tíma hjá sjúkraþjálfara, kírópraktor eða sálfræðingi sér að kostnaðarlausu. Boðið er upp á árlega bólusetningu við inflúensu.

Felist starfið í langvarandi setum við tölvuskjáinn á starfsfólkið rétt á reglulegu eftirliti með augnheilsu og sjón. Starfsfólkið getur ef þörf krefur fengið sérsniðin tölvugleraugu fyrir skjávinnu sér að kostnaðarlausu.

Vellíðan felst ekki eingöngu í líkamlegu hreysti. Mikilvægt er að borða góðan mat og skemmta sér í góðum hópi.

Mötuneytið býður á hverjum degi upp á ljúffengan mat í hádeginu, fjölbreytt salathlaðborð, heitan rétt, osta og ávexti.

Paraplyen er regnhlífarsamtök hinna ýmsu klúbba og félaga sem starfsfólkið tekur þátt í. Undir Regnhlífinni starfar matar- og vínklúbbur, fólk fer saman í leikhús og kvikmyndahús, og stundar jafnvel badminton eða fótbolta.

Starfsfólk og fjölskyldur þeirra geta fylgst með vinnufélögunum á tónleika, tekið þátt í matreiðslunámskeiðum eða vínsmökkun eða farið saman á fótboltaleiki. Allt fer eftir áhuga hvers og eins. Vinnustaðurinn niðurgreiðir félagsstarfið og leggur áherslu á að nýtt starfsfólk taki þátt í því.

Paraplyen undirbýr sumarveislur, jólaskemmtanir og haustferðir.

Búferlaflutningar til Kaupmannahafnar

Það er hægara sagt en gert að flytja á milli landa. Húsnæðisleit getur reynst ærið verkefni, eins að finna skóla eða leikskóla fyrir börnin og að átta sig á skriffinnskunni í nýju landi.

Við gerum okkur grein fyrir því og leggjum okkur fram um að aðstoða nýtt starfsfólk og fjölskyldur þeirra.

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa tekið saman svonefndan flutningspakka fyrir starfsfólk sem flyst búferlum vegna starfa í Norræna húsinu í Kaupmannahöfn.

Flutningsráðgjafi hefur samband við nýja starfsmanninn áður en hann flytur og er honum til aðstoðar á meðan verið er að koma sér fyrir í Kaupmannahöfn.

Ráðgjafinn aðstoðar við húsnæðisleit. Starfsmaðurinn fær aðstoð við að velja sér hverfi og ráðgjöf um verðlag og samninga. Áður en ráðningartíminn hefst er starfsmanni boðið ásamt fjölskyldu til Kaupmannahafnar og fer flutningsráðgjafinn með þeim að skoða lausar leiguíbúðir sem samsvara óskum fjölskyldunnar. Aðstoð er veitt til að stofna bankareikning, fá danska kennitölu (CPR-nummer), ganga frá símaáskrift og finna heimilislækni.

Ef þörf krefur er greitt fyrir lögfræðiaðstoð.

Greitt er fyrir búferlaflutningana og styrkur veittur til að mæta kostnaði sem fylgir því að koma sér fyrir á nýjum stað.

Fjölskylda starfsmanns fær að sjálfsögðu aðstoð þegar hún er að koma sér fyrir. Flutningsráðgjafinn aðstoðar við leit að skóla og leikskóla.

Einnig er þjónustupakki fyrir maka starfsmanns. Parið velur sjálft hvaða aðstoð það þiggur. Maka er boðin aðstoð við atvinnuleit á höfuðborgarsvæðinu og til að finna félagsleg tengsl og tómstundastarf í Kaupmannahöfn.

Aðstoð við flutning

Greiddur er flutningskostnaður fyrir starfsfólk sem flytur til Danmerkur vegna starfsins.

Flytji starfsfólk til Danmerkur vegna starfsins er greitt fyrir flutningskostnaðinn. Boðið er upp á flutningsráðgjöf, aðstoð við húsnæðisleit og vegna skriffinnsku sem fylgir því að koma sér fyrir í Danmörku.

 Greiddur er svonefndur flutningsstyrkur til að mæta ýmsum kostnaði vegna búsetu í nýju landi. Starfsfólk sem flytur til Danmerkur á rétt á aukagreiðslum sem ráðast af fjölskylduhögum viðkomandi. Greitt er fyrir eina heimferð á ári.

Starfsfólk sem flytur til Danmerkur er skráð í danska heilbrigðis- og félagsmálakerfið.

Hæfniþróun og aðstoð við atvinnuleit vegna starfsloka

Stefnan er sú að allt starfsfólk í norrænu samstarfi búi yfir góðri þekkingu og færni. Leitast er eftir að veita starfsfólki kost á að þróa færni sína og þekkingu. Þess vegna er mikið áhersla lögð á færniþróun.

Boðið er upp á starfstengd námskeið og menntun, en eftir nokkurra ára starf er starfsfólki einnig gefinn kostur á að stunda annað nám til að efla hæfni sína og þekkingu.

Í ljósi þess að ráðningarsamningar eru tímabundnir er mikilvægt að hjálpa starfsfólkinu til að komast áfram þegar ráðningu lýkur. Á áttunda ári ráðningar er starfsfólkinu boðið að taka þátt í starfslokaáætlun. Hún felst í ýmis konar hagnýtri aðstoð við leit að nýjum og athyglisverðum tækifærum á vinnumarkaði.