Saga Norðurlanda

kunstværk -Island
Frá Leifi heppna til stofnunar Norðurlandaráðs – Norðurlöndin eiga meira en þúsund ára sameiginlega sögu. Gegnum aldirnar hafa bæði verið tímabil vináttu og ófriðar en síðustu 100 árin hafa bönd Norðurlandanna styrkst stöðugt, bæði hvað varðar sameiginlegan menningarskilning og viðurkenningu á margbreytileika.

Þegar Leifur Eiríksson sem bar viðurnefnið „hinn heppni“ hélt af stað frá vesturströnd Grænlands árið 1002 hvarflaði trúlega ekki að honum að sú ferð yrði heimssögulegur viðburður. Norðurlöndin hafa allar götur frá tímum víkinganna átt í sérstöku sambandi þvert á landamæri og ef einhver einstaklingur er tákngervingur þess sambands þá er það einmitt Leifur Eiríksson. Hann var fæddur á Íslandi, ólst upp á Grænlandi og varði nokkrum árum á unglingsaldri í Noregi. Leifur Eiríksson var norrænn heimsborgari – og árið 1003 komst hann alla leið til Vínlands, eða Nýfundnalands eins og það heitir nú á dögum. Hann varð þannig fyrsti Evrópubúinn sem ferðaðist til Ameríku, mörg hundruð árum áður en Kristófer Kólumbus komst þangað.

Á dögum Leifs Eiríkssonar urðu stórir hlutar Norðurlandanna í fyrsta sinn sameiginlegt ríki undir því sem seinna hefur verið kallað veldi Noregskonunga.

Á dögum Leifs Eiríkssonar urðu stórir hlutar Norðurlandanna í fyrsta sinn sameiginlegt ríki undir því sem seinna hefur verið kallað veldi Noregskonunga. Smám saman réðu Noregskonungar yfir Færeyjum, Íslandi og Grænlandi – og samskiptin milli þeirra og konunga Svíþjóðar og Danmerkur voru náin.

Norrænir víkingar náðu ekki bara til landsins sem nú heitir Kanada heldur einnig til fjarlægra borga langt inni í Rússlandi og við Miðjarðarhafið. Víkingar urðu síðar þekktir sem blóðþyrstir stríðsmenn en þeir voru þó fyrst og fremst verslunarmenn sem sigldu með varning sinn og góðir bændur sem héldu húsdýr og ræktuðu land. Víkingarnir tóku þannig þátt í að færa Norðurlönd til nýrra tíma og með kristnitökunni á árunum í kringum 1000 færðust Norðurlöndin einnig menningarlega nær öðrum Evrópuþjóðum.

Norðurlöndin verða eitt

Með kristnitöku komu nýir menningarstraumar til Norðurlanda. Byggðar voru stórar kirkjur eins og dómkirkjurnar í Stafangri og Ribe og komið á fót klaustrum og biskupsstólum, meira að segja á Vestur-Grænlandi. Kaupstaðir byggðust upp og borgir voru reistar – og nýjar matarvenjur og fatatíska komu til skjalanna með vaxandi viðskiptum við borgir og lönd sunnar í álfunni.

Það voru þó ekki aðeins spennandi nýjungar sem komu að sunnan heldur einnig pestin eða Svarti dauði. Hann hafði alvarlegar afleiðingar og náði nánast að útrýma íbúum Noregs og Íslands. Ekki er vitað hvort það var pestin sem drap norrænt fólk á Grænlandi en vitað er að norræn menning dó út á Vestur-Grænlandi í upphafi 14. aldar. Þá áttu eftir að líða 300 ár áður en raunverulegt samband komst aftur á milli Grænlands og annarra Norðurlanda.

Á miðöldum var menningarleg, efnahagsleg og pólitísk eining Norðurlandanna staðfest.

Á miðöldum var menningarleg, efnahagsleg og pólitísk eining Norðurlandanna staðfest. Það gerðist árið 1397 þegar Svíþjóð, Danmörk og Noregur sameinuðust í Kalmarsambandinu sem í raun var norrænt stórveldi. Undir sambandið heyrðu einnig norskar nýlendur handan hafs, Hjaltland, Orkneyjar, Færeyjar og Ísland ásamt Álandseyjum og Finnlandi sem var komið undir sænska stjórn á miðöldum. Kort af Kalmarsambandinu lítur í stórum dráttum út eins og kort af Norðurlöndum nútímans.

Sambandið milli norrænu þjóðanna var tiltölulega sterkt fyrstu árin en með tímanum trosnuðu böndin og sundrung varð milli Danmerkur-Noregs annars vegar og Svíþjóðar-Finnlands hins vegar. Kalmarsambandið klofnaði að lokum um miðjuna og á eftir kom tímabil sem einkenndist af ófriði á Norðurlöndum, meðal annars upp úr hinu kunna blóðbaði í Stokkhólmi árið 1520 þar sem Kristján II Danakonungur lét taka af lífi stóran hóp aðalsmanna og annarrra mikilvægra borgara í Stokkhólmi í viðleitni sinni til að halda völdum í Svíþjóð.

Nýlendur og stríð

Á síðmiðöldum og á endurreisnartímanum drógust Norðurlöndin á margan hátt aftur úr miðað við aðrar Evrópuþjóðir. Svíþjóð þróaðist vissulega á þessum tíma til þess að verða hefðbundið evrópskt stórveldi sem hafði yfirráð yfir stórum hlutum Eystrasalts, þar á meðal meirihluta hinna núverandi Eystrasaltslanda og svæða þar sem nú er Þýskaland og Pólland. Finnland var einnig áfram hluti sænska ríkisins. Danmörk og Noregur reyndu fyrir sér sem nýlenduveldi með því að taka yfir Trankebar í Austur-Indíum og hluta af því Afríkulandi sem nú heitir Gana, ásamt þremur eyjum í Karíbahafinu St. Thomas, St. Jan og St. Croix. Síðastnefndu eyjarnar voru undir stjórn Dana allt fram til 1917.

Engu að síður stóðu Norðurlöndin í skugga blómlegra borgríkja í suðri og siglingaþjóða eins og Spánar, Portúgals, Hollands og Englands. Þær höfðu hafið landvinninga um heim allan sem hafði mikil áhrif á þróunina í Evrópu. Hvorki Danmörk-Noregur né Svíþjóð-Finnland gegndu slíkum mikilvægum hlutverkum – þess í stað stóðu hin fyrrverandi sambandsríki í síendurteknum stríðsrekstri hvert gegn öðru í tilraunum sínum til að ná fullum völdum yfir sameinuð Norðurlönd.

Þessi stríð tóku verulega á og styrktu aðallega stöðu Svíþjóðar. Fyrst misstu Danir yfirráð sín yfir frjósömum og þróuðum héruðum Skánar, Hallands og Blekinge til Svíþjóðar – og árið 1814 glötuðu Danir tvíburaþjóð sinni, Noregi, í hendur Svíþjóðar sem þá hafði misst frá sér Finnland til aðalkeppinautarins: Rússlands. Danmörk hélt völdum yfir Íslandi, Færeyjum og þeim hluta Grænlands sem þá var orðin nýlenda þeirra.

Nýtt upphaf

Þegar leið á 18. öldina grófu Danmörk og Svíþjóð stríðsöxina. Bæði löndin höfðu þá orðið stöðu smáríkja á evrópskan mælikvarða en stórveldin sáu hag sinn í því að löndin héldu sjálfstæði sínu af hernaðarlegum ástæðum. Þörf var fyrir stuðpúða milli stórvelda eins og Rússlands, Prússlands, Frakklands og Stóra-Bretlands og það var talinn kostur að Eystrasalt væri ekki undir einni og sömu stjórninni.

Útbreidd fátækt hafði einkennt fyrri hluta 18. aldar svo margir eygðu möguleika á nýju og betra lífi og gerðust vesturfarar í Ameríku. 

Iðnvæðingin varð á margan hátt nýtt upphaf fyrir Norðurlönd. Útbreidd fátækt hafði einkennt fyrri hluta 18. aldar svo margir eygðu möguleika á nýju og betra lífi og gerðust vesturfarar í Ameríku. Samfara blómlegum iðnaði varð aukin þörf fyrir vinnuafl í stækkandi borgum og til varð þungaiðnaður, námugröftur og skipasmíðastöðvar víðsvegar á Norðurlöndum.

Í Finnlandi, Íslandi og Noregi voru sterk sjálfstæðisöfl og á Álandseyjum og í Færeyjum dreymdi marga einnig um sjálfstæði eða í það minnsta víðtæka sjálfstjórn. Noregur fékk sjálfstæði 1905 og Ísland varð fullvalda 1918. Finnland lýsti yfir sjálfstæði gagnvart Rússlandi 1917 – en fóru árin á eftir í gegnum erfiða borgarastyrjöld milli aðila sem annars vegar vildu þétta sambandið við Rússland og hins vegar hin Norðurlöndin. Noregur valdi að verða þingbundið konungsríki eins og Svíþjóð og Danmörk en Finnland varð lýðveldi sem byggði utanríkisstefnu sína í ríkum mæli á vinsamlegu sambandi við Rússland.

Stríðið sem sundraði

Iðnvæðingin myndaði jarðveg fyrir lýðræðisþróun og lýðræðið varð á árunum eftir fyrri heimstyrjöld fullmótað á Norðurlöndunum. Norðurlöndin höfðu haldið hlutleysi sínu í fyrri heimstyrjöldinni en bæði Danmörk og Noregur voru þvinguð inn í seinni heimstyrjöldina þegar Þýskaland réðist inn í og hernam bæði löndin 1940. Svíþjóð hélt hlutleysi sínu gegnum allt stríðið en Finnland studdi Þýskaland framan af. Finnland tapaði illa í orystum, fyrst gegn Sovétríkjunum og síðan Þýskalandi og stríðið markaði sömuleiðis djúp spor í Noregi.

Ísland, Færeyjar og Grænland voru í litlu sambandi við hin Norðurlöndin meðan á stríðinu stóð en voru undir bandarískri og breskri hervernd. Vera Bandaríkjamanna á Grænlandi hrundi ekki síst af stað hraðri þróun í samfélagi sem áður hafði verið einangrað og fyrst og fremst haft viðurværi sitt af fiskveiðum og öðrum veiðum.

Eftir stríð varð ör efnahagsleg þróun á öllum Norðurlöndum, meðal annars vegna hinnar bandarísku Marshall-aðstoðar. Finnland leitaðist við í utanríkisstefnu sinni að halda jafnvægi sinni milli náins sambands við Sovétríkin og þess að koma til móts við vestræn ríki og þar með hin Norðurlöndin. Hlutleysisstefna landsins var afdráttarlaus að kröfu Rússa og viðskipti voru stunduð bæði við vestræn ríki og Rússland. Svíþjóð stóð fast við hlutleysi sitt en Ísland, Danmörk og Noregur gengu til liðs við hernaðarbandalagið NATO árið 1949.

Velferð og nýir sáttmálar

Utanfrá séð virtust norrænu ríkin sundruð en milli þeirra innbyrðist voru sterk öfl sem sáu kosti í tvíhliða samvinnu sem gæti fært Norðurlöndin saman mennningarlega, efnahagslega og pólitískt – að því marki sem mismunandi áherslur í utanríkisstefnu leyfðu. Þetta leiddi til stofnunar Norðurlandaráðs árið 1952.

Grunnurinn var lagður að norræna velferðakerfinu strax fyrir seinni heimstyrjöldina. Norðurlöndin skáru sig frá öðrum Evrópuríkjum með því að byggja upp félagslegt öryggisnet gegnum hærri skatta og gjöld. Enn frekar var aukið við norræna velferðarkerfið á árunum eftir stríð sem tryggði meðal annars heilbrigðiskerfi og skólakerfi. Menningarlegar brýr þvert á Norðurlöndin – og sameiginlegur áhugi á félags-, umhverfis- og efnahagsmálum varð grunnstoð Norðurlandaráðs.

Menningarlegar brýr þvert á Norðurlöndin – og sameiginlegur áhugi á félags-, umhverfis- og efnahagsmálum varð grunnstoð Norðurlandaráðs.

Norðurlöndin fimm, Ísland, Noregur, Finnland, Danmörk og Svíþjóð ásamt sjálfstjórnarsvæðunum Álandseyjum (sjálfstjórn frá 1921), Færeyjum (sjálfstjórn frá 2005) og Grænlandi (sjálfstjórn frá 2009) nutu öll efnahagslegs vaxtar seinni hluta 20. aldar vegna aukins útflutnings og aukinnar vinnslu hráefna svo sem olíu og jarðgass. Efnahagur Finnlands og Íslands sveiflaðist bæði upp og niður á árunum í kringum árþúsundamótin. Á sama tíma stóð norskur efnahagur í blóma, ekki síst vegna olíuvinnslu í Norðursjó.

Þó að þróunin á Norðurlöndum hafi í stórum dráttum átt samleið þá hefur sagan mótað hagsmuni einstakra landa sem hafa gengið inn í önnur ríkjabandalög. Danmörk gekk í Evrópubandalagið árið 1973 og seinna í Evrópusambandið. Svíþjóð, Finnland og Álandseyjar urðu ekki aðilar að Evrópusambandinu fyrr en 1995 en Noregur og Ísland standa enn utan Evrópusambandsins. Svíþjóð og Finnland eru aftur á móti ekki aðilar að NATO. Aðeins í Norðurlandaráði sameinast öll Norðurlöndin.

Norðurlöndin standa saman í dag – ekki eins þétt pólitískt og efnahagslega og á tímum Kalmarsambandsins heldur fremur eins og var þegar Leifur heppni hélt út í heim og fann Ameríku. Nú eins og þá ferðast Norðurlandabúar milli Norðurlandanna, stunda innbyrðis viðskipti og þrátt fyrir mun milli tungumála og menningar er í samskiptunum sóst eftir þeim heilindum, forvitni og sköpunargleði sem tryggja stöðugleika, öryggi og blómlegan efnahag bæði á Norðurlöndunum og í heiminum utan þeirra.