Umboð norræns viðbúnaðarhóps á sviði heilbrigðismála (Svalbarðahópsins)

Inngangsorð

Norrænn heilbrigðisviðbúnaður

Starfsemi Svalbarðahópsins byggir á Norræna samningnum um heilbrigðisviðbúnað, sem var undirritaður árið 2002.

Í Svalbarðahópnum sitja fulltrúar ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Markmið Norræna samningsins um heilbrigðisviðbúnað er, eins og lýst er í annarri grein samningsins, að stuðla að samvinnu milli Norðurlandanna vegna undirbúnings og þróunar á heilbrigðisviðbúnaði með tilliti til viðbragða við hættuástandi og hamförum, að meðtöldum náttúruhamförum og atvikum (slysum og hryðjuverkaárásum) þar sem m.a. geislavirk efni, sýkla- og efnavopn koma við sögu.

Eins og lýst er í þriðju grein samningsins varðar hann samvinnu milli þar til bærra norrænna aðila á sviði heilbrigðis- og félagsmála.

Eins og lýst er í fjórðu grein samningsins skuldbinda Norðurlandaþjóðirnar sig til eftirfarandi:

  1. sé þess beðið, að aðstoða hverjar aðra af fremsta megni innan ákvæða þessa samnings,
  2. að upplýsa hverjar aðra eins fljótt og auðið er um framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar eða eru þegar hafnar og sem munu hafa, eða ætla má að muni hafa, þýðingu annars staðar á Norðurlöndum,
  3. að efla samvinnu í landslögum, reglugerðum og öðrum reglum samkvæmt þessum samningi og ryðja úr vegi hverju því sem hindrað getur samvinnu þessa að eins miklu leyti og hægt er,
  4. að stuðla að samvinnu um hæfnisþróun og að aðilar geti skipst á reynslu,
  5. að stefna að þróun samvinnu á þessu sviði,
  6. að upplýsa hver aðra um breytingar sem viðkoma fyrirkomulagi á viðbúnaði, einnig lagabreytingar.
     

Grundvallarreglur í starfi norræns viðbúnaðarhóps á sviði heilbrigðismála (Svalbarðahópsins)

Markmið og verkefni

Svalbarðahópurinn hefur starfsumboð sitt frá ráðherranefndinni um félags- og heilbrigðismál (MR-S). Grundvöllur starfsemi hans er Norræni samningurinn um heilbrigðisviðbúnað.

Starf Svalbarðahópsins byggir á hugtökum og skilgreiningum á sviðum viðbúnaðarskipulags, hættustjórnunar og áhættustjórnunar, áhættuminnkunar, áhættumats, áhættugreiningar, fyrirbyggjandi aðgerða, viðbúnaðaraðgerða, enduruppbyggingar og matsaðgerða.

Hópurinn starfar eftir nálgun sem byggir á heildrænu viðbúnaðarskipulagi og -aðgerðum („all hazards approach“).

Hópurinn er samstarfsvettvangur þar til bærra yfirvalda um Norræna samninginn um heilbrigðisviðbúnað. Markmið hópsins er að efla samstarf og miðla upplýsingum, hæfni og þekkingu á sviði heilbrigðis- og félagsmála milli norrænu landanna hvað varðar viðbúnað, hættu- og hamfarastjórnun, með það fyrir augum að löndin verði betur í stakk búin til að bregðast við hættuástandi og hamförum.

Samstarf yfirvalda getur snert á öllum stigum og hliðum hættu- eða hamfaraástands.

Möguleg starfsemi hópsins getur t.d. tekið til viðbúnaðarskipulags og stuðnings við aðgerðir, þegar eitt af ríkjunum stendur frammi fyrir hættu- eða hamfaraástandi. Einnig getur hópurinn miðlað reynslu og þekkingu um geislavirkni, geymslu á sjaldgæfum bóluefnum, ónæmisglóbúlíni og móteitri.

Stjórnun og skipulag

Sama land og gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni hverju sinni gegnir formennsku í Svalbarðahópnum. Formennskulandið hefur umsjón með starfi hópsins og sér um að skipuleggja hina árlegu norrænu ráðstefnu um heilbrigðisviðbúnað. Formennskutímabilið varir vanalega í eitt ár.

Hópurinn sér um að móta stefnumarkandi ramma fyrir starfsemi hópsins til næstu ára. Embættismannanefndin um félags- og heilbrigðismál (EK-S) þarf að samþykkja rammann. Sama gildir um allar meiriháttar breytingar á hinum stefnumarkandi ramma sem Svalbarðahópurinn leggur til eftir að ramminn hefur verið samþykktur. 

Á hverju ári kemur hópurinn sér saman um aðgerðaáætlun fyrir komandi ár, sem byggir á hinum stefnumarkandi ramma.

Formennskan ber ábyrgð á því að leiða starf hópsins og útvega viðeigandi skjöl í því sambandi.

Skipan

Í Svalbarðahópnum sitja 1-2 fulltrúar frá hverju ríki og sjálfstjórnarsvæði, sem valdir eru af viðkomandi landi.

Aðrir sérfræðingar og/eða samstarfsaðilar geta komið að starfi hópsins, sé það talið nauðsynlegt.

Áheyrnarfulltrúi frá skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar getur setið fundi hópsins, auk fulltrúa frá viðeigandi ráðuneytum, hafi þau ráðuneyti ekki fulltrúa í hópnum.

Verkferlar

Hópurinn fundar eftir þörfum, þó að minnsta kosti tvisvar á hverju formennskutímabili.

Tengiliðaupplýsingar fyrir fulltrúa hvers lands í hópnum eru á slóðinni www.nordhels.org. Löndin bera ábyrgð á því að uppfæra sínar upplýsingar eftir þörfum.

Starf Svalbarðahópsins byggir á stefnumótandi ramma og aðgerðaáætlun fyrir hvert ár (sjá að ofan).

Skýrslugjöf

Með vísan í 5. grein Norræna samningsins um heilbrigðisviðbúnað skilar Svalbarðahópurinn skýrslu um starfsemi fyrra árs. Skýrsluna á að senda Norrænu ráðherranefndinni. Einnig skal greina frá annarri starfsemi en þeirri sem vísað er til í 5. grein samningsins.

Landið sem gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni hverju sinni ber ábyrgð á því að meta skýrsluna og kynna hana á fundi embættismannanefndarinnar um félags- og heilbrigðismál (EK-S).

Útgjöld

Löndin standa sjálf straum af þeim útgjöldum sem hljótast af þátttöku þeirra í starfi Svalbarðahópsins.

Gildistími

Umboðið gildir uns annað verður ákveðið.