Einhugur um börn sem leita hælis ein síns liðs

19.04.16 | Fréttir
Í velferðarnefnd Norðurlandaráðs ríkir einhugur um að réttindi hælisleitenda undir lögaldri skuli setja í forgang í öllum norrænum löndum. Fulltrúar nefndarinnar notuðu tækifærið og heimsóttu móttökubúðirnar í Hvalstad í Asker í tengslum við þemaþingið í Ósló.

Í nefndinni situr stjórnmálafólk af öllu litrófi stjórnmálanna. Formaður hennar er hinn norski Bente Stein Mathisen (H).

„Þó að við sjáum hlutina frá mismunandi pólitískum sjónarhornum, þá erum við sammála um að allir undir 18 ára aldri, sem dveljast á Norðurlöndum, eiga rétt á góðum og öruggum uppvexti og um mikilvægi þess að virða réttindi barna, eins og þeim er lýst í barnasáttmála SÞ, á öllum Norðurlöndunum,“ segir Stein Mathisen.

Í heimsókninni fræddust nefndarmenn um upplifun ungmenna af dvöl í móttökunni, rekstur móttökunnar, aðstæður barna sem dveljast þar, samstarf móttökunnar við yfirvöld, stofnanir og nærumhverfi, og hvernig brugðist er við þegar börn hverfa frá móttökunni.

Allir undir átján ára aldri, sem dveljast á Norðurlöndum, eiga rétt á góðum og öruggum uppvexti.

Lætur sig almennt öryggi og réttaröryggi varða

Norræna velferðarnefndin vinnur að því að efla og þróa norræna velferðarlíkanið. Markmið nefndarinnar er að finna sjálfbærar lausnir á þeim viðfangsefnum sem svið heilbrigðis- og félagsmála stendur frammi fyrir. Almennt öryggi og réttaröryggi einstaklinga eru stór þáttur velferðarinnar, og ómissandi til að norrænir borgarar – þ.e.a.s. borgarar sem dveljast á Norðurlöndum – búi við frelsi og lífsgæði. Því falla málefni innflytjenda og aðlögunar undir verksvið velferðarnefndar.

Um móttökubúðirnar í Hvalstad

Móttökubúðirnar í Hvalstad eru í hverfinu Hvalstad í Asker í Noregi. Móttakan er ætluð hælisleitendum undir lögaldri sem eru einir á ferð, á aldrinum 15–18 ára. Lengd dvalar er að jafnaði 1-2 mánuðir, meðan beðið er eftir viðtali hjá norsku útlendingastofnuninni (UDI) og hugsanlega aldursprófi. Rekstrarsamningur búðanna við UDI gerir ráð fyrir 56 föstum plássum með möguleika á allt að 110 íbúum. Í móttökunni er mikið lagt upp úr norskunámi, fræðslu um mataræði og næringu, virkni íbúa og góðri upplýsingadagskrá. Auk þess standa utanaðkomandi samstarfsaðilar fyrir starfsemi bæði innan og utan móttökusvæðisins.