„Finnland treystir algerlega á Svíþjóð“

02.07.15 | Fréttir
Nordisk försvarsdebatt
Varnarmálasamstarf Svía og Finna er sífellt að aukast. Engin endanleg mörk eru fyrir samstarfinu og enginn vill tala upphátt um varnarbandalag. Þetta var meðal þess sem kom fram við umræðu á Degi Norðurlanda í Almedalen í Svíþjóð.

Umræðan um norrænt varnarmálasamstarf, og sérstaklega sænsk-finnskt samstarf, fór fram fyrir fullu Norðurlanda-tjaldi í Almedalen og varð lífleg og á köflum harðskeytt. Allir fjórir þátttakendurnir í pallborðsumræðunum voru sammála um að samstarf væri af hinu góðu og að gott væri að efla það enn frekar, en skoðanamunurinn kom einkum fram í því hvernig móta ætti samstarfið í reynd og hvað það ætti að snúast um.

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sem er þingmaður Jafnaðarmannaflokksins, lagði áherslu á að full alvara væri á bak við samstarfið við Finnland og að það væri áþreifanlegt.

„Þetta snýst um raunverulegt starf, ekki eitthvað loðið og óljóst,“ sagði Hultqvist, en hann er jafnframt formaður Nordefco, varnarmálasamstarfs Norðurlanda.

Lýðræðishalli í öryggismálastefnu Svía

Allan Widman, þingmaður sænska Þjóðarflokksins (Folkpartiet), sem er formaður varnarmálanefndar þingsins, óskaði eftir nánari upplýsingum um hugmyndir sænsku ríkisstjórnarinnar um stefnuna í öryggismálum og samstarfið við Finna. Hann taldi að ríkisstjórnin gæfi ekki rétta mynd af raunveruleikanum.

„Það er lýðræðishalli í sænskri öryggismálastefnu. Stjórnmálamennirnir okkar þora ekki að lýsa raunveruleikanum eins og hann er.“

Widman óskaði einnig eftir meiri og ítarlegri upplýsingum um samstarf Svía og Finna, einkum vegna þess að samstarfið á einnig að taka til stuðnings og aðstoðar ef átök verða eða stríð brýst út. Eva Haldén, fyrrum lektor við sænska varnarmálaháskólann (Försvarshögskolan), tók undir með Widman.

„Það er lýðræðishalli í sænskri öryggismálastefnu. Stjórnmálamennirnir okkar þora ekki að lýsa raunveruleikanum eins og hann er.“

En Peter Hultqvist hafnaði algerlega þessum kröfum og taldi óhugsandi að Svíar myndu opinbera alla þætti varnarmálaáætlana sinna fyrir „grannanum í austri“, það er að segja Rússlandi.

Eva Haldén, sem einmitt hefur stundað rannsóknir á hernaðarsamstarfi, sagði að varnarmálasamstarf geti verið erfitt viðureignar. Að hennar sögn er meðal annars ákaflega mikilvægt að gera ekki sömu hluti saman heldur að finna svið þar sem menn geta bætt hvorn annan upp.

Sendiherra Finnlands í Stokkhólmi, Jarmo Viinane, sem einnig sat við pallborðið, fullvissaði menn um að í Finnlandi væri mjög mikill stuðningur við varnarsamstarfið við Svía. Viinan sagði jafnframt að ekki væri til neinn „lokapunktur“ fyrir samstarfið og hvorki hann né Hultqvist vildu viðurkenna að um yrði að ræða varnarbandalag í framtíðinni.

Sendiherrann sendi skýr skilaboð til þeirra sem velt hafa því upp að Finnar trúi ekki á að Svíar komi til hjálpar ef til átaka kemur:

„Finnar hafa fulla trú á því að Svíar komi til aðstoðar ef upp kemur neyðarástand.“

Umræðan mótaðist af sívaxandi spennu í öryggismálum kringum Eystrasalt og síaukinni hörku Rússa.

„Sem stendur er veggurinn sem skilur að fríð og átök örþunnur, og það á meðal annars við um grannsvæði okkar,“ sagði Allan Widman.

Norðurlönd standa saman

Peter Hultqvist lagði áherslu á að sænsk-finnska og norræna samstarfið sendi umheiminum og Rússlandi skýr skilaboð um að Norðurlönd standi saman.

En aðild að NATO er hvorki á dagskrá hjá Svíum né Finnum sem stendur, þrátt fyrir að Finnar segist halda dyrunum opnum hvað varðar aðild. Upp á síðkastið hafa aftur borist skilaboð úr austri um að Rússar yrðu lítt hrifnir ef Svíar og Finnar gerðust aðilar að NATO. En þeir Hultqvist og Viinanen fullvissuðu menn um að lönd þeirra tækju ákvarðanir í varnarmálum sjálf án þess að taka tillit til Rússlands.

„Svíþjóð móta stefnu sína í varnarmálum óháð því hvernig Rússar líta á málin,“ sagði Hultqvist.

Það voru Norðurlönd í brennidepli, upplýsingaskrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Stokkhólmi, sem stóð fyrir ráðstefnunni.