Forsætisráðherrarnir vilja skilvirkara samstarf stjórnvalda

28.10.15 | Fréttir
Nordiska statsministrar
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Norrænu forsætisráðherrarnir áttu fund með blaðamönnum að loknum fundi sínum í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík. Ráðherrarnir lögðu áherslu á skilvirka miðlun reynslu og þekkingar varðandi flóttamannavandann og ítrekuðu samstöðu sín á milli, þrátt fyrir að löndin hefðu mismunandi afstöðu til þessa stóra úrlausnarefnis.

„Við viljum senda sterk pólitísk skilaboð til Bandaríkjanna og Rússlands: nú verður að finna pólitíska lausn á ástandinu í Sýrlandi,“ sagði forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen.

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, sagði að ýmislegt benti til þess að starf Norðurlandanna gegn öfgastefnu hefði borið árangur og að þeim Norðurlandabúum sem gengju til liðs við ISIS færi fækkandi.

„Við verðum þó jafnframt að vera meðvituð um að fleira í löndum okkar getur ýtt undir öfgastefnu, eins og sést á þeirri andstöðu sem flóttamannavandinn hefur haft í för með sér,“ sagði Solberg.

Ráðherrarnir voru á einu máli um mikilvægi samvinnu um málefni flóttafólks.

„Ekkert land getur leyst úr þessu eitt síns liðs,“ sagði forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven. „Grundvöllur starfs okkar í þessum málaflokki er ESB. En jafnvel þó Norðurlöndin séu ekki sammála um lausnir vandans, þá er samstarfið mikils virði.“

Forsætisráðherra Finnlands, Juha Sipilä, sagði það mikilsvert fyrir Finna að læra af reynslu annarra, þá sérstaklega í tengslum við stefnu í aðlögunarmálum.

Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir einnig málefni norðurslóða, auk samstarfsins um loftslagsmál og í tengslum við það einnig norrænt samstarf í aðdraganda COP21, loftslagsráðstefnu SÞ í lok þessa árs, svo og samstarf á ráðstefnunni sjálfri.