Fulltrúar Norðurlandaráðs sýna Póllandi og Eystrasaltsríkjum stuðning með heimsókn

18.03.14 | Fréttir
President och vice president Nordiska Rådet
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Forseti og varaforseti Norðurlandaráðs, Karin Åström og Hans Wallmark frá Svíþjóð, hafa ráðgert með stuttum fyrirvara að heimsækja Pólland og Eystrasaltslöndin til að sýna stuðning sinn vegna ríkjandi spennuástands í Úkraínu. Ástandið í Úkraínu var einnig ástæða þess að heimsókn sendinefndar Norðurlandaráðs til Múrmansk, sem ráðgerð hafði verið í þessari viku, var aflýst.

Karin Åström mun hefja heimsókn sína í Vilníus þann 20. mars og halda þaðan ferðinni áfram til Varsjár, þar sem Hans Wallmark mun hitta hana 21 mars. Mánudaginn 24. mars liggur leið þeirra svo til Ríga og Tallinn.

Forseti og varaforseti Norðurlandaráðs munu funda með fulltrúum forsætisnefndar Eystrasaltsríkjaráðs og formönnum utanríkisnefnda landanna. Í Varsjá verður svo fundað með forseta efri deildar pólska þjóðþingsins.

Karin Åström og Hans Wallmark hvetja rússnesk stjórnvöld til að grípa til ráðstafana til að draga úr spennuástandi í Úkraínu:

„Sú ákvörðun að efna til ólöglegrar þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímskaga um að gangast rússneska ríkjasambandinu á vald brýtur í bága við úkraínsku stjórnarskrána og er óásættanleg. Við hvetjum rússnesk stjórnvöld til að bregðast skjótt við til að draga úr spennunni sem leitt gæti til nýrra kaldastríðstíma í Evrópu.“