„Grátt vinnuafl“ til umræðu á Álandsfundum Norðurlandaráðs

22.01.15 | Fréttir
Sjakkmønster
Photographer
Silje Bergum Kinsten/ norden.org
Á þriðjudag tekur velferðarnefnd Norðurlandaráðs fyrir þingmannatillögu flokkahóps jafnaðarmanna um að auka samstarf um fyrirkomulag au pair-vistar, með það fyrir augum að samræma starfskjör í au pair-vist á Norðurlöndum. Eva Biaudet, umboðsmaður minnihlutahópa í Finnlandi, tekur þátt í fundinum.

Au pair þýðir „á pari við“, eða að standa jafnfætis. Þó kemur fyrir að fjölskyldur misnoti kerfið, meðvitað eða ómeðvitað, og hlaði au pair-ungmenni aukastörfum sem ekki er kveðið á um í samningnum um au pair-vist.

„Í sumum tilvikum getur jafnvel verið um kynferðislega misnotkun eða hreinlega mansal að ræða,“ segir Sonja Mandt, talskona velferðarnefndar í málinu og ein af þeim þingmönnum Norðurlandaráðs sem standa að tillögunni.

Eva Biaudet, umboðsmaður minnihlutahópa í Finnlandi, tekur þátt í fundi velferðarnefndar 27. janúar og blaðamannafundi með norrænum þingmönnum sem fram fer á Lögþingi Álandseyja kl. 12:40, beint á undan fundinum.

Fulltrúar Sama í Norðurlandaráð?

Álandseyjar hafa átt aðild að Norðurlandaráði síðan 1970 og fengu þá tvö sæti af 20 í finnsku landsdeildinni. Samíska þingmannaráðið (SPR) hefur sótt um aðild að Norðurlandaráði í aðdraganda funda ráðsins á Álandseyjum.

Eiga Samar að fá eigin fulltrúa í ráðinu, t.d. með því að finnsku, norsku og sænsku landsdeildirnar afsali sér einu sæti hver? Umsóknin verður tekin til meðferðar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og borgara- og neytendanefnd á þriðjudag.

Samíska þingmannaráðið er samstarfsvettvangur Samaþinganna þriggja í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð og er fulltrúi Sama á Norðurlöndum. Í dag hafa Samaþingin stöðu áheyrnarfulltrúa í Norðurlandaráði, en það þýðir að Samar hafa tillögurétt og málfrelsi á þingi.

Ráðstefna um sjálfstjórn á Norðurlöndum

Fundir Norðurlandaráðs fara í þetta sinn fram á Álandseyjum í tilefni ráðstefnu um sjálfstjórn á Norðurlöndum sem borgara- og neytendanefndin stendur fyrir í samstarfi við Friðarstofnun Álandseyja. Ráðstefnan fer fram mánudaginn 26. janúar í Alandica Kultur och kongress og hefst kl. 13. Að ráðstefnunni lokinni verður blaðamannafundur kl. 16.

Meðal framsögumanna eru fræðimenn og stjórnmálamenn, m.a. fulltrúar sjálfstjórnarsvæðanna í Norðurlandaráði, sænski þingmaðurinn Hans Wallmark sem situr í Norðurlandaráði, Annicka Engblom, formaður borgara- og neytendanefndar ráðsins og fræðimaðurinn Pertti Joenniemi.

Norðurlandaráð er vettvangur þingmannasamstarfsins í opinberu norrænu samstarfi. Fundaröð ráðsins á Álandseyjum hefst með fundum flokkahópa og ráðstefnu um sjálfstjórn þann 26. janúar og heldur áfram með fundum forsætisnefndar og annarra nefnda Norðurlandaráðs 27. janúar. Fulltrúar í ráðinu eru 87 talsins og koma frá öllum norrænu ríkjunum auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.