„Heimurinn þarfnast ykkar!“

17.03.16 | Fréttir
Phumzile Mlambo
Norðurlöndin munu gegna lykilhlutverki við að rjúfa núverandi pattstöðu og brjóta andstöðu við jafnrétti í heiminum á bak aftur. Þetta segir Phumzile Mlambo, framkvæmdastýra UN Women. „Ég á von á því að þið á Norðurlöndum verðið fyrst til að koma á jafnrétti. Heimurinn þarfnast ykkar,“ sagði hún á fundi sem haldinn var í tengslum við CSW í New York.

Sex norrænar ríkisstjórnir taka þátt í fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, Commission on the Status of Women (CSW).

Til umræðu er hlutverk kvennanefndarinnar við framkvæmd heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun.

Í ávörpum sínum á fundinum hafa fulltrúar norrænu landanna lagt áherslu á mikilvægi þess að efla kyn- og frjósemisréttindi kvenna í heiminum.

Framsækin stefna í jafnréttismálum

Fulltrúar norrænu landanna hafa einnig rætt um reynslu landanna af því að uppræta fátækt og auka hagvöxt með aðstoð framsækinnar stefnu í jafnréttismálum – stefnu sem hafi eflt þátttöku kvenna á vinnmarkaði og jafnrétti inni á heimilum.

Rétt eins og hinir 4500 þátttakendur fundarins hafa norrænu ráðherrarnir tekiðþátt í fjölmörgum pallborðsumræðum og fundum með fulltrúum annarra landa.

Norræn skilaboð til Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna

Á miðvikudagsmorgun funduðu norrænu ráðherrarnir með Phumzile Mlambo, framkvæmdastýru Jafnréttisstofnunar SÞ (UN Women).

Skilaboð norrænu ríkisstjórnanna til Mlambo voru á þá leið að þær staðfestu áframhaldandi öflugan stuðning sinn við starfsemi UN Women.

Phumzile Mlambo sagðist vænta pólitísks stuðnings frá ríkisstjórnum Norðurlandanna. Hún hvatti ráðherrana til að brúa bilið milli kynjanna hvað varðar tekjur og áhrif í þjóðfélaginu.

„Ég vona að þið sýnið heiminum að unnt sé að koma á jafnrétti,“ sagði hún.

Horfið á viðtalið við Phumzile Mlambo hér: