Loftslagsaðgerðir eða loftslagskreppa — pólitískt val!

08.04.14 | Fréttir
Christina Gestrin og Steen Gade
Photographer
Audunn Nielsson/norden.org
Ríkisstjórnir Norðurlanda ættu að vinna markvisst að því að tekin verði ákvörðun um metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum þegar leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hittast í Brussel í júní 2014. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs í tengslum við þemaþing Norðurlandaráðs á Akureyri.

Yfirlýsing frá umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs 8/4 2014

Niðurstaða nýjustu skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna er sú að verði þróuninni ekki snúið við muni vistkerfi eyðileggjast og hungursneyðir og flóð verði algengari. Vísindin bjóða upp á margar snjallar lausnir sem geta gert heiminn dálítið betri. Þetta er spurning um pólitískt val!

Á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn 2009 samþykktu helstu ráðamenn heimsins að takmarka skyldi hlýnun jarðar við 2 gráður til að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar. Bráðum eru liðin fimm ár síðan og enn er langt frá orðum til athafna. Magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu eykst um 1 til 2% á ári. Ef losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum heldur áfram með sama hraða er líklegt að jörðin muni hlýna um 4 gráður á þessari öld. Það getur leitt til þess að loftslagskerfið nái þeim punkti að ekki verði aftur snúið og að afleiðingin verði hættulegar og óafturkallanlegar loftslagsbreytingar. Ef losun minnkar á næstu áratugum er hægt að draga verulega úr hættunni á að þetta gerist.

Helsta markmið Norðurlanda í loftslagsmálum ætti að vera að fá öll önnur lönd heimsins til að skrifa undir alþjóðasamning sem getur stöðvað þær hættulegu breytingar sem eru að verða á loftslagi jarðar.

Loftslagsvandinn varðar alla og þörf er á hnattrænni lausn. Aðeins brot af heildarlosuninni í heiminum kemur frá Norðurlöndum. Aðeins 11% af losuninni á sér stað í löndum Evrópusambandsins og sá hlutur fer minnkandi.  Helsta markmið Norðurlanda í loftslagsmálum ætti að vera að fá öll önnur lönd heimsins til að skrifa undir alþjóðasamning sem getur stöðvað þær hættulegu breytingar sem eru að verða á loftslagi jarðar. Mikilvægt skref í þá átt væri ef Evrópusambandið gæti náð samkomulagi um framsækna stefnu í loftslags- og orkumálum. Markmið Evrópusambandsins ættu meðal annars að taka til losunar gróðurhúsalofttegunda, hlutfalls sjálfbærra orkugjafa af heildarorkunotkun og orkunýtingar. Markmiðin í heild ættu að fela í sér trúverðugt skref í átt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 til 95% árið 2050 miðað við árið 1990.

Evrópusambandið hefur hingað til verið í forystuhlutverki í alþjóðlegum loftslagsviðræðum.  Þess vegna vekur það áhyggjur að evrópskum þjóðarleiðtogum skuli hafa mistekist á fundi sínum í mars að komast að samkomulagi um sameiginlega evrópska stefnu í loftslagsmálum sem geti rutt brautina fyrir evrópskt framlag til alþjóðasamnings árið 2015. Framsækin evrópsk stefna í loftslag- og orkumálum sem felur í sér aukna notkun sjálfbærrar orku og meiri samtengingu orku- og gasmarkaðarins í Evrópusambandinu getur einnig stuðlað að því að löndin verði síður háð orkuinnflutningi frá Rússlandi. 

Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins hittast aftur í júní. Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna minnir á að Evrópusambandið þarf að vera reiðubúið til að leiða heiminn út úr vaxandi loftslagsvanda, vanda sem búist er við að muni valda auknum sulti og neyð fyrir komandi kynslóðir. Þess vegna eru ríkisstjórnir Norðurlanda hvattar til að vinna markvisst að því að tekin verði ákvörðun um metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum þegar leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hittast í júní 2014.

Þemaþing Norðurlandaráðs er haldið í dag á Akureyri. Þemaþingið hefst á umræðu um stöðu mála í Úkraínu og eftir það fara fram áður fyrirhugaðar viðræður um sjálfbæra vinnslu náttúruauðlinda. Þemaþingið hefst kl. 13 að íslenskum tíma og er sent beint út á norden.org/temasession2014..