More parallel, please! - Ný norræn skýrsla um samhliða tungumálanotkun

05.05.17 | Fréttir
Islands Universitet
Photographer
Sigurður Ólafsson/norden.org
Staðbundin tungumál og enska ættu að haldast í hendur í norrænum háskólum og háskólarnir ættu að móta sér tungumálastefnu þar sem tungumálin efla hvert annað. Þannig hljóma tillögur Norræna hópsins um samhliða tungumálanotkun.

5. maí sl. kynnti Norræni hópurinn um samhliða tungumálanotkun 11 tillögur sínar á ráðstefnunni More Parallel, please! sem haldin var í norsku þjóðarbókhlöðunni í Ósló. Vinnuhópurinn starfaði í þrjú ár þar sem hann fylgdist með tungumálanotkun í alþjóðavæddum háskólum á Norðurlöndum. Norræna ráðherranefndin fól vinnuhópnum að semja tillögur að góðri tvítyngis- og fjöltyngisstefnu. Í skýrslunni eru háskólar hvattir til að hugsa alþjóðavæðingu og tungumálastefnu í samhengi með það fyrir augum að auka gæði og skilvirkni kennslu, rannsókna og stjórnsýslu.

„Við vonum að framlag okkar verði háskólunum hvatning til að flétta tungumálastefnu inn í alþjóðavæðingarstarfið,“ sagði Frans Gregersen prófessor, formaður hópsins.

„Tungumálastefna á að stuðla að góðu jafnvægi milli tungumála, og tryggja að alþjóðleg ímynd norrænna háskóla sé aðlaðandi og jafnframt að þeir standi við skuldbindingar varðandi staðbundin tungumál hver í sínu landi.“

Tillögur hópsins bera merki um hagnýta nálgun og sveigjanleika. Í skýrslunni er fjallað um tungumálaval við ýmsar aðstæður og velt fyrir sér hvaða kröfur eigi að gera til gæða tungumálsins og færni starfsfólks og námsmanna. Hópurinn leggur ennfremur til að tungumálastefna háskóla verði vöktuð, að málstöðvar háskólanna haldi námskeið og að boðið verði upp á tungumálaðstoð að undangenginni þarfagreiningu.

Í fjöltyngdum samskiptum mætti taka norræna grannmálalíkanið sér til fyrirmyndar, það er að hver tali á sínu móðurmáli. Kosturinn er sá að fólk getur betur tjáð sig með blæbrigðum og nákvæmni á því tungumáli sem er því tamast. Þetta á við um alla þátttakendur sama hvert móðurmál þeirra er!

Ráðstefnan er þáttur í formennskuáætlun Norðmanna á árinu 2017 í Norrænu ráðherranefndinni um menntamál og rannsóknir.