Norðurlandaráð ætlar að styrkja tjáningarfrelsi og góða blaðamennsku

27.01.15 | Fréttir
Pressbevakning
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum opinna og lýðræðislegra samfélaga okkar á Norðurlöndum. En Norðurlandaráð telur að tjáningarfrelsið sé undir þrýstingi og ætlar nú ræða við ráðherra og aðra aðila sem málið varðar um að búa til nýjan vettvang til að tryggja frelsi fjölmiðla og óháða og góða blaðamennsku.

– Eitt af mikilvægustu gildum okkar er það að við höfum frelsi til að skrifa og segja það sem við viljum. Með hliðsjón af þeim hörmulegu atburðum sem gerðust í tengslum við Charlie Hebdo í París ætlar Norðurlandaráð að beita sér fyrir því að frjálsir fjölmiðlar, góð blaðamennska og tjáningarfrelsi verði áfram meðal aðalbaráttumála Norðurlanda. Norðurlöndin ættu að taka höndum saman um að koma á fót lykilvettvangi fyrir samskipti um blaðamennsku og frjálsa fjölmiðlun til að efla alla þætti fjölmiðlunar og safna saman helstu aðilum, þekkingu og kunnáttu á þessu sviði, segir í yfirlýsingu frá menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs.

Þróun stafrænnar tækni og efnahagslegar breytingar stuðla jafnframt að stöðugum og vaxandi þrýstingi á fjölmiðlun og blaðamennsku. Með nýjum samskiptavettvangi vilja stjórnmálamennirnir búa frjálsum fjölmiðlum bestu mögulegu skilyrði með því að efla fagmennsku og sjálfstæði blaðamanna með hæfniþróun og miðlun þekkingar og reynslu þvert á landamæri Norðurlanda.

Norðurlönd geta jafnframt aðstoðað blaða- og listamenn sem sæta ofsóknum í heimalöndum sínum. Hjá okkur er hefð fyrir því að bjóða upp á griðastaði og góð starfsskilyrði. Ýmsar norrænar borgir eru þátttakendur í alþjóðlegum samtökum skjólborga sem einkum aðstoða rithöfunda og blaðamenn sem sæta ofsóknum.

– Við búum yfir mikilvægri reynslu á Norðurlöndum sem við getum miðlað og þar með stuðlað að góðri umræðu um stöðu tjáningarfrelsis, meðal annars á alþjóðavettvangi. Tjáningarfrelsið á áfram að vera einn af hornsteinum norrænna samfélaga og við þurfm að standa vörð um það og beita okkur fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu, taka þingmennirnir í menningar- og menntamálanefndinni fram.

Menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs ræddi tjáningarfrelsi á fundi sínum á Álandseyju og ætla nú vinna áfram með tillöguna.