Norðurlandaráð heldur alþjóðlegan leiðtogafund um Úkraínu

02.09.22 | Fréttir
Kristina Hafoss, ukrainske ambassadören Mykhailo Vydoinyk och Erkki Tuomioja på Nordiska rådets temasessioen 2022.
Photographer
Lars Dareberg / Norden.org

Úkraína var einnig á dagskrá þemaþings Norðurlandaráðs í mars 2022. Þá var Mykhailo Vydoinyk, sendiherra Úkraínu (í miðjunni), gestur fundarins. Með honum á myndinni eru Kristina Háfoss framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs og Erkki Tuomioja forseti ráðsins.

Stríð Rússa í Úkraínu verður í brennidepli á fundum Norðurlandaráðs í Reykjavík 5.-7. september. Meðal annars verður alþjóðlegur leiðtogafundur með þingmönnum frá Eystrasaltsríkjunum ásamt fulltrúum frá Úkraínu og stjórnarandstöðunni í Rússlandi og Belarús.

Leiðtogafundurinn stendur í tvo daga en markmiðið með honum er meðal annars að fá nýjustu fréttir af stöðu mála í Úkraínu en einnig af baráttu stjórnarandstæðinga í Rússlandi og Belarús og ræða saman um það sem er framundan Þá verður rætt hvernig Eystrasaltsríkin og Norðurlönd gætu stuðlað að jákvæðri þróun til framtíðar á þessum slóðum.

Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið standa að fundinum. Náið samstarf er milli þessara þingmannasamtaka og koma þau saman á hverju ári. Vegna innrásar Rússa í Úkraínu var fulltrúum Úkraínu og talsmönnum stjórnarandstæðinga í Belarús og Rússlandi einnig boðin þátttaka að þessu sinni.

Mikilvægt að sýna stuðning

Meðal þátttakenda á leiðtogafundinum verða þær Lesia Vasylenko, sem situr á þingi Úkraínu, og Elina-Alem Kent, sem er blaðamaður úkraínsku fréttaveitunnar Kyiv Independent.

Frá Rússlandi kemur Jevgenia Kara-Murza sem starfar fyrir Free Russia Foundation en eiginmaður hennar er stjórnarandstæðingurinn Vladimir Kara-Murza sem nú situr í fangelsi. Meðal þátttakenda frá Belarús er Franak Viacorka, aðalráðgjafi Svetlönu Tichanovskaja sem er leiðtogi stjórnarandstæðinga.

Íslensku ráðherrarnir, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, taka einnig þátt í fundinum mánudaginn 5. september.

„Starf Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins byggir á langri hefð fyrir lýðræði, gagnsæi og friðsamlegri sambúð en þessi gildi eru afar mikilvæg á okkar tímum. Það er jafnmikilvægt að styðja Úkraínu í varnarbaráttu sinni og viðhalda sambandi við og styðja þau sem leggjast gegn stríðsstefnunni í Rússlandi og Belarús. Staða lýðræðislegrar stjórnarandstöðu er þröng og fólk sem er andvígt stríðsstefnunni getur átt yfir höfði sér langa fangelsisdóma eða eitthvað þaðan af verra,“ segir Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs.

Úkraína og Belarús í brennidepli

Málefni Úkraínu hefur sett svip sinn á utanríkisstefnu Norðurlandaráðs frá því að hernaður Rússa hófst í Úkraínu 24. febrúar. Norðurlandaráð hefur fordæmt Rússland afdráttarlaust og lýst heilshugar stuðningi við Úkraínu. Fjallað var um innrás Rússa í Úkraínu á þemaþingi Norðurlandaráðs í mars 2022. Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið hafa einnig gert með sér samstarfssamning sem litast mjög af innrás Rússa.

Norðurlandaráð hefur lengi átt samskipti við aðila í Rússlandi og Belarús. Allt frá árinu 2007 hefur ráðið fundar árlega með stjórnarandstöðunni í Belarús og fulltrúum félagasamtaka. Samstarf við stjórnvöld landanna liggur niðri en talið er mikilvægt að eiga samskipti við stjórnarandstæðinga.

Alþjóðlegi leiðtogafundurinn verður haldinn í tengslum við septemberfundi Norðurlandaráðs þar sem forsætisnefnd, fjórar fagnefndir og flokkahópar ráðsins funda. Septemberfundirnir marka upphaf vetrarstarfs Norðurlandaráðs eins og hefð er fyrir.

Upplýsingar fyrir fjölmiðla

Haldinn verður blaðamannafundur vegna leiðtogafundarins þar sem Lesia Vasylenko, þingkona frá Úkraínu, Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs og Jānis Vucāns, forseti Eystrasaltsþingsins sitja fyrir svörum. Fleiri geta bæst í hópinn.

Blaðamannafundurinn verður haldinn 5. september, kl. 17.15 (að íslenskum tíma) í Hörpu.

Skráning í síðasta lagi 5. september, kl. 12 (að skandinavískum tíma) hér:

Norðurlandaráð var sett á laggirnar árið 1952 og er opinber samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna. Ráðið skipa 87 þingmenn frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Eystrasaltsþingið er samstarfsvettvangur þjóðþinga og er skipað þingmönnum frá Eistlandi, Lettlandi og Litáen. Það var stofnað 1991.