Norðurlandaráð ræðir aðkomu Norðurlanda í Úkraínudeilunni

31.03.14 | Fréttir
De nordiska flaggorna
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Búist er við að ástandið í Úkraínu, samstarf Norðurlanda og Rússlands og viðfangsefni tengd lýðræðisþróun í Úkraínu verði til umfjöllunar við upphaf þemaþings Norðurlandaráðs á Akureyri þann 8. apríl. Að öðru leyti verður þemaþingið helgað sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Forseti og varaforseti Norðurlandaráðs, hin sænsku Karin Åström (S) og Hans Wallmark (M), heimsóttu nýverið höfuðborgir Póllands og Eystrasaltslanda til að ræða ástandið í Úkraínu við þingmenn landanna:

„Að heimsókninni lokinni er það tilfinning okkar að við ættum ekki að einblína á framferði Rússa í þessu máli. Samstarf ríkjanna á Eystrasaltssvæðinu er mikils metið. Það er sameiginlegt hlutverk okkar að leggja áherslu á og styðja við þróun lýðræðis í Úkraínu.“

Þemaumræður um sjálfbæra námuvinnslu og fiskveiðar

Að lokinni umræðu um mál sem efst eru á baugi hefst þemaumræða þingsins um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Búist er við að fyrirferðarmestu umræðuefni á dagskránni verði tillagan um viðmið fyrir sjálfbæran námurekstur á Norðurlöndum og ennfremur áhrif alþjóðlegs samkomulags sem nýlega var gert um makrílveiðar í Norður-Atlantshafi.

Skráning blaðamanna á þemaþing Norðurlandaráðs er opin til 2. apríl. Nánari upplýsingar eru á síðunni norden.org/temasession2014. Þar verður einnig hægt að fylgjast með þemaþinginu í beinni útsendingu og hefst hún þann 8. apríl kl. 13 að staðartíma.