Norðurlandaráð ræðir stafræna tækniþróun

17.01.18 | Fréttir
IT
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Stafræn tækniþróun á sviðum allt frá umhverfismálum til varnarmála verður á dagskrá þegar nýtt starfsár Norðurlandaráðs hefst með fundum í Stokkhólmi dagana 23. og 24. janúar nk. Meðal gesta verða Peter Eriksson, sænskur ráðherra stafrænnar væðingar og Claudia Olsson framkvæmdastjóri sem World Economic Forum útnefndi Young Global Leader á árinu 2017.

Þau munu taka þátt í umræðu um stafræna tækniþróun, lýðræði og norrænu velferðarsamfélögin miðvikudaginn 24. janúar. Umræðan fer fram í förstakammarsalen í sænska þinghúsinu. Peter Eriksson mun greina frá aðgerðum sænskra stjórnvalda og norrænu ráðherrasamstarfi á sviði stafrænnar væðingar en Claudia Olsson mun kynna framtíðarsviðsmynd af Norðurlöndum 2030.

Claudia Olsson er stofnandi og framkvæmdastjóri alþjóðlegs fyrirtækis sem sérhæfir sig í stefnumótandi ráðgjöf, greiningu og þróun á sviði stafrænna umskipta. Hún hefur starfað töluvert að málefnum sem tengjast áhrifum nýrrar tækni á einstaklinga og samfélagið í heild.

Stafræn væðing er í brennidepli í norrænu samstarfi og um hana er einnig fjallað í formennskuáætlun Noregs í Norðurlandaráði 2018. Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs, tekur þátt í umræðunni á miðvikudeginum þar sem hann mun greina almennt frá því hvernig Norðmenn huga að stafrænni væðingu á formennskuárinu.

„Þjóðir Norðurlanda eru í fararbroddi á sviði stafrænnar væðingar og aukið samstarf mun efla stöðu þeirra enn frekar. Í formennskuáætlun Noregs fjöllum við um stafræna væðingu, til að mynda á sviði rafrænnar heilbrigðisþjónustu, velferðartækni og netöryggis. Allt eru þetta svið þar sem margborgar sig að vinna þéttar saman,“ segir Michael Tetzschner.

Streymi frá umræðunum um stafræna tækniþróun

Fleiri mál á dagskrá

Norðurlandaráð kemur saman í Stokkhólmi í tvo daga. Fyrri daginn funda flokkahóparnir. Seinni daginn funda hinar fjóru fagnefndir ráðsins og forsætisnefndin en einnig verður sameiginleg umræða í Norðurlandaráði um stafræna væðingu. Umræðufundurinn er opinn fjölmiðlum en honum verður einnig streymt á netinu á skandinavísku.

Síðdegis sama dag fer fram hringborðsráðstefna þingmannanna um loftslagsmál, orkumál og samgöngur.

Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi. Ráðið skipa 87 þjóðkjörnir fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Ráðið kemur saman fjórum sinnum á ári.

Fréttamenn sem hafa áhuga á að fylgjast með námsstefnunni um stafræna væðingu þann 24. janúar kl. 11-12 geta skráð sig hjá Dan Alvarsson, +46 70 231 35 72. Netfang: dan.alvarsson@riksdagen.se