Norðurlöndin finna áhuga ungs fólks á umhverfismálum farveg

09.04.19 | Fréttir
Karing Gaardsted, Alex Sigal & Ketil Kjernseth
Photographer
Anna Rosenberg/norden.org
Vinna er hafin við að virkja ungt fólk á Norðurlöndum í þágu nýs og og öflugs umhverfissamnings. Hún snýst um að bjóða ungu fólki með áhuga á umhverfismálum að byggja upp þekkingu sína og hafa áhrif á samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika sem samþykkja á 2020.

Hratt dregur úr líffræðilegum fjölbreytileika í heiminum. Mengun og illgresiseyðir, eyðing skóga, ofveiði og loftslagsbreytingar – allt skaðar þetta vistkerfið og veldur því að tegundir deyja út.  

Í haust var lögð fram tillaga Norðurlandaráðsþingmanna um að virkja norrænar ungmennahreyfingar og hjálpa til við að finna áhuga þeirra farveg til þess að hafa áhrif á nýja samninginn.

Stutt af ríkisstjórnunum

Sú stefnumörkun sem Norðurlandaráð kynnti og fékk stuðning Norðurlandaráðs æskunnar var að standa að röð ungmennaviðburða á Norðurlöndum. 

Nú liggur fyrir að norrænu ríkisstjórnirnar standa einnig að baki þessari stefnumörkun þannig að hægt er að hefja starfið. 
Viðburðirnir eru hugsaðir sem „þekkingarbankar“, en einnig vettvangur til að móta framtíðarsýn um það hvernig nýr alþjóðlegur samningur um líffræðilega fjölbreytni ætti að vera.

„Verkefnið er einstakt vegna þess að það svarar spurningum um umhverfi og loftslag en einnig aðlögun og jafnrétti. Það tryggir niðutstöðu sem verður umfram hið venjulega,“ segir Alex Sigal, Norðurlandaráði æskunnar. 

Tillögur inn í samninginn

Ætlunin er að viðburðirnir geti af sér ýmsar tillögur sem verða framlag til þeirra hnattrænu viðræðna sem eiga sér stað í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna, og einnig tillögur sem beint væri til ESB og ríkisstjórna Norðurlanda. 
 

Norðurlandaráð hyggst vinna með ungmenna- og umhverfishreyfingum að því að byggja upp efni sem verður grundvöllur undir þekkingu- og umræður ungs fólks sem vill mennta sig og leggja eitthvað fram til nýja samningsins. 

Áformað er að standa að fundum ungmenna víðsvegar á Norðurlöndum og leiðtogafundi ungmenna í upphafi ársins 2020.

Vinnunni miðar hægt

„Oft eru fullorðnir karlmenn ráðandi í samningum Sameinuðu þjóðanna. Ég er ánægður með að við erum sammála um það á Norðurlöndum að veita rödd ungs fólks og orku inn á þessa leiðtogafundi,“ segir Ketil Kjenseth, formaður sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs sem lagði tillöguna fram. 

Ríki heimsins vinna sameiginlega að því innan ramma Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni að stemma stigu við hnignun líffræðilegar fjölbreytni.

En breytingarnar gerast of hægt innan þeirra atvinnugreina sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda, sem eru fyrst og fremst landbúnaður, fiskveiðar, skógrækt og ferðaþjónusta.

Áhuginn eykst

Þau markmið sem stefnt er að fyrir árið 2020 munu ekki nást með þessu áframhaldi. Samkvæmt fjölmörgum alþjóðlegum skýrslum eru tegundir að glatast og jafnvægi og sjálfbærni náttúrunnar er raskað á miklum hraða. Og nú er nýr samningur Sameinuðu þjóðanna í vinnslu. 
„Ég er ánægð með að við skulum nú ná í og veita í farveg þennan áhuga sem við sjáum að eykst hratt einmitt nú meðal ungs fólks um heim allan. Það er unga fólkið sem þarf að kljást við spurningarnar um það hvernig við verndum auðlindir jarðar. Við verðum að styðja unga fólkið í því,“ segir Karin Gaardsted, varaformaður sjálfbærninefndarinnar.