Norræn tungumálahátíð í Árósum

30.08.17 | Fréttir
Laura Lindstedt
Photographer
Heini Lehväslaiho
Tungumál, kvikmyndir, bókmenntir, þýðingar, matur, SKAM og ýmislegt fleira norrænt. Norðurlönd svífa yfir vötnum í Árósum þegar Norræna tungumálasamstarfið stendur fyrir Norrænni tungumálahátíð dagana 18.–21. september í samstarfi við Menningarhöfuðborg Evrópu 2017.

Hin fjölbreytilega dagskrá á AROS og Godebanen í Árósum sýnir og sannar hve stóru hlutverki tungumálið gegnir í norrænu lista- og menningarlífi og hvernig það getur ýmist tengt okkur nánari böndum eða leitt til sundrungar og fordóma.

Umræða og tungumál

Töluverður munur er á umræðumenningu í Danmörku og Svíþjóð og þar gegnir tungumálið lykilhlutverki. Sænska sendiráðið í Danmörku býður til umræðna um stöðu umræðunnar, með þátttöku eftirtaldra einstaklinga sem eru virkir í þjóðfélagsumræðu í Danmörku eða Svíþjóð: Ann Heberlein, lektor við háskólann í Lundi, Bent Winther, blaðamaður og ritstjóri hjá Berlingske í Danmörku, Mette Moestrup, danskur rithöfundur og B.A. í bókmenntasögu og Anders Eka, dómari og varaformaður í umsagnarnefnd um siðferði fjölmiðla í Svíþjóð. Markmiðið með viðburðinum, „Når sproget skaber fordomme“, er ekki að festa staðalmyndir í sessi heldur að bjóða þeim byrginn.

Tungumál og menning

Verðlaun Norðurlandaráðs verða ekki langt undan en allar kvikmyndir sem tilnefndar eru í ár verða sýndar í kvikmyndahúsinu Øst for Paradis. Leikstjórar munu sitja fyrir svörum. Viðburðurinn „Nordiske stemmer“ fer fram með þátttöku tilnefndra rithöfunda; Lauru Lindstedt frá Finnlandi, Henriks Nor-Hansen frá Noregi, Sissal Kampmann frá Færeyjum og Christinu Hesselholdt frá Danmörku. Þau lesa úr verkum sínum og ræða um tungumál og bókmenntir. Seinna í vikunni verða umræður undir yfirskriftinni „Sproget er det hus vi alle bor i“ um möguleika rithöfunda á að starfa á eigin móðurmáli ef það er ekki norrænt tungumál, og það að einungis textar skrifaðir á norrænu málunum geti hlotið tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Börn og tungumál

Ýmsir viðburðir á dagskránni eru ætlaðir börnum og með þáttöku þeirra, þar sem börnunum gefst m.a. kostur á að hitta höfunda bókarinnar Ordskælv i Norden – I morgen er aldrig en ny dag (Á morgun er aldrei nýr dagur) en hún er skrifuð af ungmennum sem alist hafa upp við fátækt á Norðurlöndum. Finnlandssænski höfundurinn Malin Klingenberg heimsækir bekki í skólum og nemendur í Árósum taka þátt í norrænum skóladegi.

Hátíðir og tungumál

Matarmenning verður einnig ofarlega á baugi en efnt verður til umræðu um sviðsetningu „hins norræna“ og boðið upp á smakk. Norrænum dögum í Árósum lýkur með SKAM-hátíð þar sem ungmenni segja frá þeim áhrifum sem þáttaröðin hefur haft á þau og ástæðum vinsælda hennar.