Norrænn leiðtogafundur um íþróttamál í september

11.08.15 | Fréttir
Strandvolleyball
Photographer
Karin Beate Nøsterud/norden.org
Stjórnmál og íþróttir eiga samleið – þrátt fyrir að sumum finnist að þessir tveir málaflokkar eigi ekki að skarast. Að frumkvæði Norðurlandaráðs safnast norrænir stjórnmálamenn, fulltrúar íþróttasamtaka og íþróttalandssambanda til sameiginlegs leiðtogafundar um íþróttamál í Danmörku í september.

Markmið leiðtogafundarins er að efla norrænt íþróttasamstarf á þeim sviðum þar sem úrlausnarefnin eru sameiginleg.

„Að hluta til snýst þetta um mál tengd keppnisíþróttum, en alls ekki einvörðungu þau,“ segir Jorodd Asphjell, formaður menningar- og menntamálanefndar Norðurlandaráðs.

Hann bendir á að íþróttir séu leið til samþættingar og þátttöku og að þeir þættir íþrótta sem tengist lýðheilsu séu góð dæmi um mikilvæg samfélagsmálefni sem einnig snerta þá sem ekki hafa sjálfir áhuga á íþróttum eða hreyfingu.

Norðurlönd eiga nú þegar gott samstarf á sviði íþrótta en einmitt þessi víðtæka samfélagsumræða hefur sjaldan farið fram á breiðum grundvelli. Á leiðtogafundinum um íþróttamál munu meðal annars íþróttamálaráðherrar Norðurlanda, áhrifamiklir þingmenn, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar og fulltrúar ýmissa landsbundinna og alþjóðlegra íþróttasamtaka ræða nýjar og sameiginlegar tillögur og hugmyndir.  

Meðal þess sem verður til umræðu á leiðtogafundinum er hagræðing úrslita og barátta gegn lyfjamisnotkun, mál sem snerta tengsl lýðræðis og íþrótta, góðir stjórnsýsluhættir í íþróttasamtökum, og tengsl fjárhættuspila og fjármögnunar íþrótta.

Leiðtogafundurinn verður haldinn 24.-25. september í Álaborg.