Öryggi, loftslag og áhrif ungmenna – þing Norðurlandaráðs 2023

06.10.23 | Fréttir
Plenum i Stortinget set oppefra, Nordisk Råds Session 2018

Plenum i Stortinget set oppefra, Nordisk Råds Session 2018

Photographer
Johannes Jansson
Nýtt hlutverk Norðurlanda í NATO, stuðningurinn við Úkraínu, tækifæri til að auka hraða grænna umskipta og lýðræðisþátttaka ungmenna – þessi málefni verða að öllum líkindum efst á baugi á þingi Norðurlandaráðs í Ósló 30. október til 2. nóvember. Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í Óperunni 31. október.

Á þinginu koma 87 þingmenn Norðurlandaráðs saman til að taka þingmannatillögur til meðferðar í þingumræðum. Á þinginu fer einnig fram leiðtogafundur allra norrænu forsætisráðherranna og einnig taka margir aðrir ráðherrar þátt á þinginu.

Örugg, græn og ung Norðurlönd

Þema þingsins, „Örugg, græn og ung Norðurlönd“, er það sama og leiðarstef norsku formennskunnar í Norðurlandaráði 2023. Í Ósló verður rætt um öryggismál, nýtt hlutverk Norðurlanda í NATO og stuðning við Úkraínu, sem og spurningar á borð við hvernig Norðurlönd geti flýtt fyrir grænum umskiptum – og þátttöku ungmenna í lýðræðislegri ákvarðanatöku.

Nýr veruleiki í öryggismálum

Staða öryggismála á Norðurlöndum og í heiminum öllum hefur gjörbreyst eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Öll norrænu löndin munu að öllum líkindum brátt vera aðilar að NATO og í Norðurlandaráði hafa miklar umræður farið fram um bæði varnarmálasamstarfið og samstarf um almannavarnir á síðastliðnu ári. Tækifæri til nánara samstarfs verða rædd á þinginu, sem og hvernig Norðurlöndin geta með sem bestum hætti stutt Úkraínu.

Græn umskipti ganga of hægt

Það styttist í annað tímabil framtíðarsýnar forsætisráðherranna fyrir árið 2030 um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Stærsta áskorunin til að markmiðum framtíðarsýnarinnar verði náð felst í hinum grænu umskiptum. Á þinginu verður rætt hvernig Norðurlöndin geta með sem bestum hætti náð þessum markmiðum sínum. Nýjar framkvæmdaáætlanir verða unnar fyrir Norrænu ráðherranefndina árið 2024.

Þátttaka ungs fólks er mikilvæg

Þátttaka ungs fólks í lýðræðinu er nokkuð sem Norðurlandaráð hefur lengi unnið að í samstarfi við Norðurlandaráð æskunnar. Á síðasta ári var Norðurlandaráði æskunnar veittur réttur til taka þátt og taka til máls á öllum fundum sem haldnir eru af Norðurlandaráði. Á þinginu verður rætt um áframhaldandi vinnu að spurningunni um hvernig ungmenni geta komið að lýðræðislegri ákvarðanatöku.

Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs

Þriðjudaginn 31. október verða verðlaun Norðurlandaráðs veitt í Óperunni í Ósló. Þau fimm verðlaun Norðurlandaráðs sem verða afhent eru bókmenntaverðlaunin, barna- og unglingabókmenntaverðlaunin, tónlistarverðlaunin, kvikmyndaverðlaunin og umhverfisverðlaunin.

Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs verður streymt í beinni útsendingu á norden.org og vefsvæði NRK.

Þú getur fylgst með beinni útsendingu frá þingumræðunum í streymi á norden.org