Rán Flygenring hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023

31.10.23 | Fréttir
Rán Flygenring fick Nordiska rådets barn- och ungdomslitteraturpris 2023

Rán Flygenring fick Nordiska rådets barn- och ungdomslitteraturpris 2023

Photographer
Magnus Fröderberg, norden.org
Íslenski rithöfundurinn Rán Flygenring hefur hlotið barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 fyrir myndabókina „Eldgos“. Rán hlýtur verðlaunin fyrir myndabók fulla af sjónrænum sprengikrafti um áhrifin sem villt og óhamin náttúra hefur á fólk.

Rán Flygenring tók við verðlaununum við verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs í Norska óperu- og balletthúsinu í Ósló á þriðjudagskvöld. Norski rithöfundurinn Maja Lunde afhenti verðlaunin. Rán hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur.

Rökstuðningur dómnefndar     

Verðlaunahafinn í ár hefur skapað myndabók fulla af sjónrænum sprengikrafti um áhrifin sem villt og óhamin náttúra hefur á fólk. Mynd og texti fléttast listilega saman í fjöruga og sprenghlægilega sögu um sundurleitan hóp ferðamanna við gosstöðvar. Frásögnin iðar af lífsþrótti og bæði fangar og skopast að hrifningu okkar á öfgafullum náttúrufyrirbærum. En hún dregur einnig fram hvernig mótsagnakenndar tilfinningar vakna bæði þegar jörð klofnar, hraun flæðir og ný fjöll verða til og þegar við stöndum frammi fyrir hversdagsógnum á borð við lúsafaraldur eða sjáum nánasta umhverfi okkar yfirfyllast af ferðamönnum. Frásögnin er þannig þrungin spennu sem er sprottin úr samspilinu milli hins ægistóra og hins agnarsmáa.

 

Myndirnar í bókinni eru sneisafullar af forvitnilegum og fyndnum smáatriðum sem hrífa hinn unga lesanda með sér. Litanotkunin er hnitmiðuð og merkingarhlaðin og endurspeglar viðfangsefnið á markvissan hátt. Biksvart gjallið birtist lesandanum í japönsku bleki og glóandi hraunfljótið kallast á við heita litina í forstofudregli. Við hliðina á þessu marglita sjónarspili verða fölar manneskjurnar eins og áminning um að við erum öll, rétt eins og túristarnir, bara hér í heimsókn. Er náttúran eingöngu til okkur til skemmtunar eða ættum við að taka meiri ábyrgð á samskiptum okkar við hana?

 

Eldgoskveikir von um að við getum fundið leið til að lifa í sátt við náttúruna.

Um barna- og unglingabókmenntaverðlaunin 

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 2013 og er ætlað að efla og vekja athygli á barna- og unglingabókmenntum á Norðurlöndum. Alls voru 14 norrænar myndabækur, barnabækur og unglingabækur tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár.