Rússneskir þingmenn á Norðurlandaráðsþing

23.09.14 | Fréttir
Marit Nybakk
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Rússneskum þingmönnum er boðið til Norðurlandaráðsþings í Stokkhólmi í lok október. Forsætisnefndin var einhuga í því að mikilvægt væri að halda áfram að ræða við þingmenn í Rússlandi.

Utanríkismálin voru fyrirferðamikil á fundi Norðurlandaráðs sem haldinn var í Tampere í Finnlandi.

Á dagskrá forsætisnefndar voru mál sem snerta fyrirhugaða fundi með rússneskum þingmönnum, hringborðsumræður um varnarmál og tillaga um fund með Eystrasaltsþinginu, Vísegrad-löndunum og fulltrúum nýkjörins þings í Úkraínu.

Samræður eru rétta leiðin

Mestar umræður urðu um þátttöku Rússa á þinginu. Allir meðlimir forsætisnefndar lögðu áherslu á mikilvægi þess að senda skýr skilaboð varðandi framferði Rússlands í Úkraínu og brot gegn friðhelgi landamæra annarra landa. Jafnframt voru menn þó þeirrar skoðunar að besta leiðin í samskiptunum við Rússland væri að halda áfram samræðum við þingmenn.

Umræður um varnarmál

Annað árið í röð býður Norðurlandaráð varnarmálaráðherrum Norðurlanda og formönnum varnarmálanefnda norrænu þinganna til hringborðsumræðu um varnar- og öryggismál. Umræðuefni ársins verður „Evrópa í kjölfar Krímskagans ― áhrif á öryggismál í Evrópu og norrænt varnarmálasamstarf“.

Norðmenn fara með formennsku í samstarfssamtökum Norðurlanda í varnarmálum, NORDEFCO, á þessu ári og hringborðsumræðurnar fara því fram í Ósló 13. október nk.

Á forsætisnefndarfundi Norðurlandaráðs var einnig nefnt að auk þess að ræða um atburðina í Úkraínu mætti taka fyrir hryðjuverkasamtökin ISIS og hlutverk þeirra í Sýrlandi, Írak og umheiminum.

Norðurlandaráð undirbjó jafnframt að senda sendinefnd til Tallinn. Það er gert til að fylgja eftir fyrri fundum með Eystrasaltsþinginu. Síðar er gert ráð fyrir að halda fundi með Vísegrad-löndunum og hugsanlega með fulltrúum nýkjörins þings Úkraínu.