Þemaþing dróst á langinn vegna umræðna um Úkraínu

08.04.14 | Fréttir
Temasession 2014
Photographer
Audunn Nielsson/norden.org
Þemaþing Norðurlandaráðs á Akureyri dróst á langinn vegna umræðna um stjórnmálaástandið í Úkraínu Einhugur ríkti um það milli flokkahópanna að hið ótrygga ástand í austri væri áhyggjuefni fyrir norrænt samstarf. Því væri ástæða til að hafa umræður þingsins um málefni líðandi stundar óvenjulangar.

Þótt varnar- og utanríkismál heyri ekki formlega undir norrænt samstarf er frjálst að undirbúa fyrirspurnir þar að lútandi, og á þemaþinginu spunnust líflegar umræður um möguleika Norðurlandaráðs til að sýna stuðning við lýðræðisþróun í Úkraínu.

„Þessar aðstæður eru óvenjulegar í heiminum og óvenjulegar fyrir okkur,“ sagði Karin Åström (S), forseti Norðurlandaráðs þetta árið, í setningarræðu sinni. Hans Wallmark (M) varaforseti tók undir orð hennar og lagði áherslu á mikilvægi umræðna, enda væru engar handbækur til fyrir norrænt samstarf um viðbrögð við ástandi sem þessu.

Aðrir ræðumenn settu aðstæður í sögulegt samhengi og voru á því að ekkert í líkingu við undangengna atburði í Úkraínu hefði átt sér stað síðan í seinni heimsstyrjöld. Einnig var minnt á að nú væru 25 ár liðin frá falli Berlínarmúrsins og Sovétríkjanna. Norðurlöndin hefðu verið fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna á sínum tíma, og í þeim anda ættu aðilar norræns samstarfs að bregðast við aðstæðum nú. Auk þess myndu slík viðbrögð vera í fullu samræmi við viðbrögð ESB, Nató og norrænu ríkjanna. 

„Samstarf okkar snýst ekki um varnar- eða utanríkismál, heldur um sameiginleg gildi í krafti þeirrar trúar að þjóðaréttur skuli lagður til grundvallar,“ sagði Hans Wallmark.

Fleiri ræðumenn vísuðu í þjóðarétt sem grundvöll til að bregðast við undangengnum atburðum í Úkraínu. Norrænt samstarf varð til í skugga seinni heimsstyrjaldar og þess kalda stríðs sem á eftir kom, og ber því vitni að lýðræði og friðsamleg samvinna koma frelsi einstaklinga og framþróun ríkja til góða.

Norrænir samstarfsaðilar hafa um árabil átt mikilsvert samráð með þingmönnum og öðrum tengiliðum í Rússlandi

„Það er afar mikilvægt að standa vörð um þetta samráð eftir megni,“ sagði Bertel Haarder (V). „Þannig sýnum við að frjáls skoðanaskipti eru til merkis um grundvallarfrelsi og -réttindi í lýðræðissamfélagi.“

Yfirlýsing þemaþingsins vegna núverandi ástands í Úkraínu.